Sturla Gunnar Eðvarðsson framkvæmdastjóri Smáralindarinnr segir ekki það ekki rétt sem haldið hafi verið fram í fréttum í morgun að félagið borgi með leigutökum.

„Ég gerði athugasemd við fyrirsögnina, sem var Smáralindin borgar með, hjá Fréttablaðinu í morgun, sem er algerlega rangt,“ segir Sturla Gunnar en hann segir alls konar útfærslur þó vera á leiguverðum. „En við borgum ekki með neinum húsaleigusamningum, það er náttúrulega fáránlegt að segja það eða halda því fram.“

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur gengi bréfa Regins, móðurfélags Smáralindar, lækkað mest á markaði í morgun, en töluverðar lækkanir verið hafa á markaði í dag. Sturla Gunnar segir að félagið geti leigt allt það leigurými sem ekki sé nú í útleigu.

Létum rýmin frekar standa auð

„Það er ekki vandamálið, heldur erum við á höttunum eftir ákveðnum aðilum til að fá inn í húsið, og þess vegna létum við rýmin frekar standa auð heldur en að leigja það til næsta aðila,“ segir Sturla Gunnar, sem segir að farið verði að huga að útleigu rýmanna í nágrenni við væntanlega verslun H&M við opnun hennar.

„Við erum með ákveðna fermetra undir í framkvæmdum, í kringum opnun H&M hefur verið vinnusvæði hérna í vesturenda hússins meirihluta þessa árs og við vorum með annað eins í fyrra þegar við breyttum Hagkaupum. Það eru líklega um 20% af leigjanlegum fermetrum Smáralindar sem hafa verið úti í þessum framkvæmdum.“

Í viðræðum við alþjóðlegar keðjur

Sturla Gunnar segir félagið þegar í viðræðum við alþjóðlegar keðjur til að fylla þau rými sem losnar, en um sé að ræða nokkur þúsund fermetra þar sem verslanir Tiger og Útilífs voru áður. Verslun alþjóðlegu fataverslunarinnar H&M tekur um 4.300 fermetra af því rými.

„Þetta er ekki stóra málið í rekstri félagsins, það er ekkert óeðlilegt að fasteignafélög í heild sinni, eins og móðurfélagið, séu með eitthvað leigurými tómt,“ segir Sturla sem segir félagið hafa beðið allt þetta ár og liggi í raun ekki á.

„Áður en við fórum í þessar framkvæmdir þá vorum við með 100% leiguhlutfall, það var allt leigt í þessu húsi. Við erum í ákveðnu breytingaferli, og meðan það stendur yfir þá verður eitthvað leigurými að standa autt. Ég ætla ekki að upplýsa um hve lengi það verður, en það getur verið fram á haustið og það getur verið fram á næsta vor.“