Stjórnir lífeyrissjóða standi frammi fyrir óvenju stórri og afdrifaríkri ákvörðun varðandi hlutafjárútboð Icelandair að mati Guðrúnar Hafsteinsdóttur, stjórnarformanns Landsamtaka lífeyrissjóðanna.

„Það mun ekki skipta nokkru máli hvað stjórnir sjóðanna gera, ákvarðanir þeirra verða umdeilanlegar,“ sagði Guðrún á aðalfundi samtakanna síðasta föstudag.

Henni þykir einnig miður hvernig verkalýðshreyfingin hefur tjáð sig um málefni Icelandair.

„Svo virðist jafnvel sem forystumenn úr verkalýðshreyfingunni telji sig hafa völd til að taka ákvarðanir um hvað beri að gera fyrir hönd stjórna sjóðanna. [...] Svo er að sjálfsögðu ekki og ég vara við slíku enda er það í hæsta máta óeðlilegt að reyna þannig að hafa áhrif á ákvarðanir stjórnarmanna lífeyrissjóða. Slíkt gæti jafnvel verið á jaðri hins löglega,“ segir Guðrún.

„Mjög mikilvægt er að hafa í huga að sjálfstæði stjórna er grundvallaratriði í starfsemi sjóðanna. Við í stjórnum lífeyrissjóða höfum alvarlegum skyldum að gegna, berum ríkar skyldur og höfum mikla ábyrgð að svara fyrir. Við erum ekki og eigum aldrei að verða strengjabrúður!“

11,6% ávöxtun lífeyrissjóðanna í fyrra

Ávöxtun ársins 2019 hjá lífeyrissjóðunum var 11,6% og munaði þar mest um gott gengi erlendra fjárfestinga. Erlendar eignir skiluðu góðri ávöxtun auk þess sem krónan veiktist lítillega sem stuðlaði að eignaaukningu í krónum talið.

Þetta kom meðal annars fram í skýrslu stjórnar Landssamtaka lífeyrissjóða sem Guðrún Hafsteinsdóttir, stjórnarformaður, flutti á aðalfundi samtakanna á Grandhóteli á föstudaginn var.

Guðrún sagði lífeyrissjóðkerfið vel rekið, skilvirkt og hagkvæmt. Lífeyrissjóðir hafi um árabil verið allt of margir og veikburða en þeim hafi fækkað verulega án lagaboðs eða þvingana af neinu tagi. Tíu stærstu lífeyrissjóðirnir ávaxti hátt í 90% af eignum lífeyrissjóðakerfins, 21 lífeyrissjóður sé skráður en nokkrir þeirra vistaðir hjá öðrum lífeyrissjóðum eða bönkum.

Vil sjá meiri fjárfestingu í nýsköpun

Guðrúnu var tíðrætt um þátt lífeyrissjóðanna í ráðstöfunum gagnvart sjóðfélögum og fyrirtækjum vegna erfiðleika sem kórónukreppan hefur kallað yfir samfélagið og efnahagslífið.

Hún minnti á að reynslan af uppbyggingu eftir bankahrunið 2008 sýndi að vel og farsællega gæti farið saman að taka þátt í að stuðla að endurreisn atvinnulífsins annars vegar og ávaxta eignir lífeyrissjóða hins vegar. Framtakssjóður Íslands væri gott dæmi um slíkt.

Hún hvatti jafnframt til þess að stjórnir lífeyrissjóða íhuguðu nú vel og vandlega aðkomu að innviðum samfélagsins og vísaði til útspils ríkisstjórnarinnar á dögunum í því sambandi.

„Samgönguráðherra boðaði nýlega sex verkefni sem hægt væri að fara í með tiltölulega stuttum aðdraganda. Hann talaði um þau sem samvinnuverkefni og nefndi í því sambandi mögulega aðkomu lífeyrissjóða. Ég er þeirrar skoðunar að þarna fari vel saman hagsmunir allra sem hlut eiga að máli og því eigi lífeyrissjóðirnir velta þessum möguleikum fyrir sér af fullri alvöru,“ segir Guðrún.

„Nú þegar gefur á bátinn í efnahagslífi okkar nefnir annar hver maður að við Íslendingar þurfum nauðsynlega að fjölga stoðum verðmætasköpunar hér á landi. Við köllum eftir því að Ísland leggi meiri áherslu á hugvitsdrifið hagkerfi en auðlindadrifið. Sömuleiðis er horft til lífeyrissjóðanna og þeir hvattir til að fjárfesta í auknum mæli í nýsköpun.“