„Við erum fulltrúar okkar kjördæma. Og ég sé ekkert óeðlilegt við það að fulltrúar sinna kjördæma bendi á það sem hefur miður farið í sínum kjördæmum,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson þingmaður Sjálfstæðisflokksins í umræðum um samgönguáætlun 2015-2018 í þingsal í dag. Þingmenn höfðu mismunandi hugmyndir um hvaða framkvæmdir væru brýnastar.

Guðlaugur sagði gallann við þetta fyrirkomulag vera það er ekki væri verið að ræða um hálendisvegi. Hálendisvegir væru safarí-vegir og að halda ætti í þá upplifun sem hálendið er. Ákveða þyrfti hvaða svæði ætti að venda frá uppbyggðum vegum, Sprengisandur væri til dæmis vegur sem mætti ekki byggja upp. Guðlaugur gagnrýndi hins vegar aðgerðaleysi í vegaúrbótum á höfuðborgarsvæðinu.

Fagnaði framlögum til snjómoksturs

Fleiri þingmenn töluðu um nauðsyn framkvæmda í sínu kjördæmi. Vilhjálmur Árnason þingmaður Suðurkjördæmis talaði til að mynda um höfnina í Höfn í Hornafirði. Líneik Anna Sævarsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins sagði að samgönguáætlunin væri stóra málið í byggðamálum. Sagði hún að um fátt væri meira spurt á ferðum þingmanna en samgönguáætlun.

Líneik fagnaði auknum framlögum til snjómoksturs og hvatti til þess að fjármagni væri veitt í rannsóknir vegna Fjarðaheiðaganga, sem tengja myndu Egilsstaði og Seyðisfjörð. Hún hvatti jafnframt til þess að ómalbikuðum vegköflum á Austurlandi verði fækkað.

Samgöngumátar vinni saman

Ólöf Nordal innanríkisráðherra og flutningsmaður samgönguáætlunarinnar talaði um mikilvægi öryggis í samgöngum. Hún sagði að fólk ætti að hafa val um hvaða samgöngumáta það kjósi, hvort sem það er að keyra, ganga eða hjóla. "Allt þarf þetta að geta unnið saman. Og við eigum ekki að stilla þessu upp hvert á móti öðru," sagði Ólöf.