Svanhvít Friðriksdóttir upplýsingafulltrúi Wow air segir að hægt að skrá sig hjá félaginu á póstlista vegna ferða sem félagið hefur staðfest að verði farnar til Rússlands vegna heimsmeistaramótsins í knattspyrnu.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í síðustu viku fær KSÍ yfir milljarð króna með því að tryggja sér sæti á heimsmeistaramótin í gærkvöldi með sigrinum á landsliði Kosovo. Ísland vann Kosovo með tveimur mörkum gegn engu á Laugardalsvelli og endaði því í efsta sæti riðilsins. Þar með erum við minnsta þjóðin sem nokkurn tíman hefur sent lið í keppnina.

„Við munum verða með flug til Rússlands,“ segir Svanhvít í samtali við Morgunblaðið. „Við bíðum eins og aðrir eftir 1. desember þegar í ljós kemur í hvaða borgum Ísland keppir.“ Lúðvík Arnarsson forsvarsmaður VITA sport segir að taka þurfi með í reikninginn að hugsanlega þurfi að fljúga á milli allra leikstaða. „Við erum á leið til Rússlands það er bara svoleiðis.“

Guðjón Arngrímsson upplýsingafulltrúi Icelandair segir það blasa við að grípa þurfi til ráðstafana til að koma fólki til Rússlands. „Við vitum af áhuganum og rennur blóðið til skyldunnar sem aðalstyrktaraðili landsliðsins.“

Voru tilbúin með ferðir á umspilsleiki

Bragi Hinrik Magnússon yfirmaður hópadeildar Gamanferða segir félagið þegar hafa undirbúið ferðir á leikina báða umspilsdagana en eftir sigurinn gærkvöldi þurfi ekki lengur að hafa áhyggjur af því.

Bragi Hinrik býst við því að fleiri nýti sér ferðaskrifstofur til að fara á HM í Rússlandi heldur en gerðu til að fara á EM í Frakklandi. Allt að þrjú þúsund kílómetrar eru á milli borga sem keppt verður í enda landið það stærsta í heimi.

„Við erum búin að undirbúa allt sem hægt er að þessari stundu hjá flugfélögum og koma okkur inn á hótel,“ segir Bragi Hinrik sem segir að hægt sé að skrá sig á póstlista hjá félaginu. „Fólk þarf þá ekki að hafa áhyggjur af gæðum hótela, tungumáli og ferðum á milli borga.“