Vorfundur miðstjórnar Framsóknarflokksins hófst í morgun. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður flokksins, setti fundinn og flutti ræðu. Stór hluti ræðunnar fjallaði um þá óeiningu sem verið hefur í flokknum síðan Sigurður Ingi velti Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni úr formannsstólnum fyrir átta mánuðum síðan.

„Það er rétt, okkur vantar meiri og sterkari samstöðu í þingflokknum," sagði Sigurður Ingi í ræðu sinni. „Og það er sú krafa sem almennir félagsmenn eiga með réttu á okkur sem valin hafa verið til forystu í flokknum. Ég er tilbúinn að vinna með öllum framsóknarmönnum, að því að auka veg og vanda Framsóknarflokksins og framfylgja stefnu hans.

Á síðasta kjörtímabili var lagður grunnur að þeim lífskjarabata sem orðið hefur á Íslandi á undanförnum árum. Það gerðist undir forystu Framsóknarflokksins. – Gleymum því ekki.

Ég vil nota þetta tækifæri hér í dag og spyrja; ímyndið ykkur hvað við gætum gert núna ef okkur auðnaðist að ganga í takt? En það er einmitt það sem ég tel að flokksmenn séu að kalla eftir, þegar þeir segja að það skorti á samstöðuna. Og verðum við í forystu flokksins, stjórn flokksins og þingmenn – ekki að beygja okkur undir þennan vilja og þessa sjálfsögðu kröfu?

Erum við ekki kosin til þess að gera þjóðfélagið betra á forsendum þess sem hugsjónir flokksins grundvallast á; skuldum við ekki flokksmönnum og kjósendum okkar það að starfa saman af heilindum og einurð? Mitt svar er, jú við eigum að gera það.

Í Morgunblaðinu í gær mátti lesa hvaða augum sumir líta flokkinn okkar og ákvarðanir okkar flokksmanna. Þar segir einhver að rán hafi átt sér stað í haust og þeir, sem á að hafa verið rænt frá, fyrirgefi ekki slíkan gjörning, ekki núna, ekki seinna! Auga fyrir auga, tönn fyrir tönn, hefur verið viðhaft af minna tilefni."

Hér er Sigurður Ingi að vísa í ónafngreind ummæli sem birtust í Morgunblaðinu í gærmorgun. Þar var fjallað um fund miðstjórnar og rætt við ónafngreint fólk. Var eftirfarandi haft eftir einum stuðningsmanni Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar: „Það er engin launung á því, að Sigurður Ingi beinlínis rændi formennskunni af Sigmundi Davíð og við sem styðjum Sigmund Davíð og höfum gert frá því hann var kjörinn formaður 2009 fyrirgefum ekki slíkan gjörning, ekki núna og ekki seinna."

Í ræðu sinni sagðist Sigurður Ingi spyrja sig hvort samvinnumaður talaði svona „þetta er ekki sérlega framsóknarleg nálgun? Og hvaða fyrirgefningu er verið að tala um, við hvern á að segja „sorrý“? Hin almenna framsóknarmann, meirihluta fulltrúa á flokksþingi?"

Á flokksþingi í haust var tekist á. Svo virðist sem sumir líti á niðurstöðu þess þings sem einhvers konar svik við hluta flokksins. Það er að segja, að meirihlutinn hafi svikið minnihlutann. Og nú sé bara spurningin hvenær þau svik verði leiðrétt. Ég skil vel að einhverjir hafi orðið sárir og það taki tíma að heila þau sár. Ég skil að það geta ekki allir verið ánægðir öllum stundum og ég geri ekki kröfu um slíkt. En ég á erfitt með að skilja þá sem gera óánægjuna að sínum helsta vin og félaga. Að mínu viti er það ekki í eðli og anda Framsóknarflokksins að standa þannig að málum.

Ástandið gæti vafalítið verið betra í flokknum okkar, en í lifandi flokki – sem vill og ætlar að vera stór flokkur- eiga að rúmast margar skoðanir og stundum mismunandi, þótt grunnstefið sameini okkur. Sumir hafa valið að koma fram opinberlega og lýsa þeirri skoðun að órói sé mikill í flokknum. Ég veit að það eru skiptar skoðanir, en stundum hefur maður það á tilfinningunni að verið sé að tala upp ágreininginn. Hvaða tilgangi þjónar það?

Við í forystunni höfum eðlilega áhyggjur af þessu en höfum lagt okkur eftir að hlusta og bregðast við eftir atvikum. Við þurfum að finna leiðir til sameiningar en ekki sundrungar. Og allir þurfa að spyrja sig hvernig getur framlag mitt orðið til þess að efla einingu og styrkja flokkinn; hvernig er hægt að leggjast á árar með félögum sínum?

Ég tel að allir þeir sem bjóða sig fram undir merkjum Framsóknarflokksins skuldi almennum félagsmönnum og fylgjendum okkar öllum, að við berjumst sameiginlega fyrir hugsjónum flokksins. Og það hefur áður verið sagt, og skal hér endurtekið; Framsókn hefur ætíð vegnað best þegar framsóknarfólk stendur saman. Og gleymum því ekki, það á að vera gaman að vera í Framsókn."