Greiðslumiðlunarfyrirtækið Kortaþjónustan þurfti allt frá stofnun félagsins árið 2002 að lifa við gróft samráð stærri greiðslumiðlunarfyrirtækjanna hér á landi. Það leiddi til þess að árið 2008 voru Valitor, Borgun og Greiðsluveitan sektuð um samtals 735 milljónir króna en um er að ræða eitt stærsta samkeppnislagabrot á Íslandi.

Nokkuð var fjallað um samráðið í vor eftir að Kastljós birti og fjallaði um gögn í málinu sem þá fyrst voru gerð opinber.

Í kjölfarið sagði Ragnar Önundarson, fyrrv. framkvæmdastjóri Borgunar (sem þá hét Kred- itkort), af sér sem varaformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna.

„Við lifðum af og félagið verður 10 ára á næsta ári. Þetta hefur verið hörð barátta og við vorum í raun lamaðir í langan tíma,“ segir Jóhannes Ingi Kolbeinsson, framkvæmdastjóri Kortaþjónustunnar og einn af stofnendum fyrirtækisins, aðspurð- ur um stöðu fyrirtækisins í dag. <ð>„Þetta er búið að vera heilmikið ferli á þessum tíma og ég vil meina að við höfum haft mikil áhrif á þennan markað. Sem dæmi má nefna að þegar við byrjuðum voru stóru kortafyrirtækin í raun ekki með neinar söludeildir. Verslunareigendur fóru á einn stað til að gera þjónustusamning en gerðu í leiðinni samning við hinn aðilann á markaðnum. Það skipti í raun engu máli hvert hann fór. Á meðan við vorum lamaðir með alls kyns aðgerðum gegn okkur, þá eru hinir að byggja upp og svo þegar við vorum að standa upp voru þeir hlaupandi. Þannig að við erum enn að byggja okkur upp eftir þetta stóra samráð þeirra.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.