Í nýútkominni bók sinni fer Björgólfur Thor Björgólfsson m.a. yfir kynni sín af undirheimum Rússlands og spilltum auð- og stjórnmálamönnum, en hann átti þá hlut í verksmiðjum í Pétursborg sem framleiddu áfenga gosdrykki og bjór.

„Eitt sinn var ég kynntur fyrir Baltic Financial Industrial Group, sem var stór framleiðandi neysluvara. Við hittumst í íburðarmiklum skrifstofum þeirra, drukkum mikið af vodka og þeir sögðust vilja kaupa alla okkar framleiðslu gegn því að þeir fengju 5% afslátt. Ég sagði að þetta hljómaði mjög vel að því gefnu að þeir gætu selt þetta allt, en hvaða tryggingu hefði ég ef þeim tækist það ekki? 'Þú veist hverjir við erum. Við getum gert þetta' var svarið. En ég hafði áhyggjur af því að ég yrði of háður þessum hópi. 'Það skiptir ekki máli' sögðu þeir. 'Þú munt lenda í einhverju mjög slæmu ef þú gerir þetta ekki. Við munum bara þurfa að drepa þig til að koma þessu í gegn'.“

Hann segir að honum hafi í kjölfarið verið ráðlagt að láta eins og hann hefði ekki skilið hótunina og láta lítið fara fyrir sér. Ef hann fengi sér áberandi lífverði yrði hann skotinn í bílnum sínum. Ef hann fengi sér skothelda bifreið yrði hún sprengd upp. Fylgdi hann þessum ráðum og þegar hann ræddi aftur við stjórendur Baltic lét hann eins og þetta samtal hefði aldrei átt sér stað og segir hann að svo hafi farið að þeir misstu áhugan á fyrirtækjum Björgólfs.

Björgólfur segir að sögusagnir um tengsl sín við rússnesku mafíuna séu "að langstærstu leyti" uppspuni. Hann noti orðalagið "að langstærstu leyti" vegna þess að nær ómögulegt sé að starfa í Rússlandi án þess að komast á einhverjum tímapunkti í tæri við glæpamenn, hvort sem það séu ruddar í æfingagöllum eða spilltir stjórnmálamenn. Oftast leggist þessir menn hins vegar á fólk sem gefst upp og lætur þeim í hendur sem þeir krefjast. Með því að vera þrjóskur eða þykjast ekki skilja kröfurnar sé hægt að vísa flestum þeirra á braut. Hins vegar hafi á endanum verið nauðsynlegt að ráða öryggisfyrirtæki til að takast á við glæpamenn sem þessa.