Herdís Fjeldsted, stjórnarformaður Icelandic Group
Herdís Fjeldsted, stjórnarformaður Icelandic Group
© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Við lítum svo á að Magnús sé rétti maðurinn til að leiða fyrirtækið áfram. Mismunandi menn henta fyrir mismunandi verkefni,“ segir Herdís Fjeldsted, stjórnarformaður Icelandic Group. Eins og greint var frá í morgun hefur Lárus Ásgeirsson hætt sem forstjóri Icelandic Group og búið að ráða Magnús Bjarnason í stöðu hans.

Lárus stoppaði stutt við hjá Icelandic Group en hann var ráðinn forstjóri í október í fyrra. Ekki var ákveðið í kringum ráðningu Lárusar að hann myndi stýra fyrirtækinu í stuttan tíma.

„Það var samkomulag á milli okkar Lárusar að hann léti af störfum núna. Hann hefur farið með félagið í gegnum mikið breytingaskeið. Nú er kominn tími til að þróa félagið áfram. Við sjáum Magnús sem rétta manninn í verkefnið og vorum sammála um að hann tæki við boltanum,“ segir Herdís í samtali við vb.is.

Herdís bendir á að nú standi yfir stefnumótunarvinna og sé horft til margra tækifæra fyrir Icelandic Group. „Við munum koma með það fljótlega út hvað við gerum,“ segir hún.

Icelandic Group rekur tvær verksmiðjur í Bretlandi og eina verksmiðju í Malaga á Spáni auk þess sem fyrirtækið keypti nýverið verksmiðju í Belgíu. Þessu til viðbótar er Icelandic Group með sölu- og markaðsfyrirtæki víða.