„Ég tel ekki ólíklegt að skuldirnar nemi 80-100% af landsframleiðslu. Það setur okkur í flokk með Portúgal og Spáni,“ segir dr. Jakob Ásmundsson, sérfræðingur hjá Straumi fjárfestingarbanka. Hann bendir á að áætluð niðurstaða hans um erlenda skuldastöðu þjóðarbúsins sé óstaðfest. Seðlabankinn er að fara yfir útreikningana.

Dr. Jakob var með erindi um skuldastöðu þjóðarbúsins á hádegisfundi Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga þar sem skuldastaða þjóðarbúsins var til umræðu og til hvaða ráða eigi að grípa til að afnema gjaldeyrishöftin.

Jakob sagðist hafa litið á Ísland sem fyrirtæki og líkti gjaldeyrishöftunum við greiðslustöðvun. Þegar komið er að fyrirtækjum í slíkri stöðu þá felast fyrstu skrefin í því að banka upp á hjá skiptastjóra og fara yfir bækurnar.

„Þegar menn hafa áttað sig á þessu þá er reynt að semja við kröfuhafa um endurskipulagningu skuldanna,“ sagði Jakob en var fljótur að bæta við að skuldir upp á allt að 100% af landsframleiðslu væri ansi há gírun á sama tíma og undirliggjandi eignir skapa ekki nægan gjaldeyri til að greiða niður erlendar skuldir umfram vexti.

Hann benti hins vegar á að vandinn við mat á stöðu þjóðarbúsins felist ekki síst í því að óvíst sé hver skuldastaðan er í raun og veru. Það geti skilað því að þær spár sem lagðar eru fram um þróun efnahagsmála eru of bjartsýnar.

„Við sklljum ekki alveg hvert vandamálið er. Það er grundvallarforsenda að við skiljum vandamálið. Ef það er ekki gert þá verður lausnin ekki rétt. Við viljum ekki fá yfir okkur höft eftir nokkur ár. Ég hef séð fyrirtæki fara í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu sem hafa lagt fram of bjartsýna spá. Maður þarf því miður að skoða þau fyrirtæki aftur.“