Opni háskólinn í HR býður nú í fyrsta sinn upp á heildstætt nám í aðferðafræðum straumlínustjórnunar, stöðugra umbóta og þróun viðskiptaferla. Námið er unnið í samstarfi við Marel og hefst í lok janúar.

„Með náminu fá þátttakendur meðal annars innsýn í hvernig vinna má að stöðugum umbótum, breytingastjórnun, aðferðafræði straumlínustjórnunar og PDCA-stjórnunaraðferðina. Viðskiptaferill er sú aðgerð sem skipulögð er til að koma vöru eða þjónustu til viðskiptavina. Hagur stjórnenda er því mikill af því að endurskoða viðskiptaferla og koma auga á möguleika í starfseminni og tækifæri til hagræðingar,“ segir Kamilla Reynisdóttir, verkefnastjóri hjá Opna háskólanum í HR í tilkynningu frá skólanum.

Pétur Arason, rekstrarverkfræðingur hjá Marel er einn af leiðbeinendum í náminu. Hann hefur fengið í lið með sér helstu sérfræðinga Íslands í þessum aðferðafræðum. Það eru þau Þórunn María Óðinsdóttir stjórnunarráðgjafi, Pétur Orri Sæmundsen framkvæmdastjóri hjá Spretti, Viktoría Jensdóttir deildarstjóri há Össuri, Björgvin Víkingsson forstöðumaður hjá Marel og Daði Ingólfsson Agile þjálfari hjá Spretti.

„Við viljum kenna þátttakendum á bæði mjög praktísku og svo hugmyndafræðilegu stigi, aðferðafræði sem bætir starfsemi og vinnuferla,“ segir Pétur. „Mörg fyrirtæki hafa þegar markað sér stefnur en þessi nýja aðferðarfræði miðast við að samþætta helstu stefnur fyrirtækisins. Það má segja að í þessu felist tækifæri til að endurskoða svokallaða fyrirtækjamenningu hverrar starfsemi, en það er orðið augljóst að þau skipurit sem tíðkast hafa eru óðum að verða úrelt. Við verðum að finna nýjar leiðir til að stýra fyrirtækjunum okkar.“