„Við viljum vera frjálsir menn og þess vegna viljum við losna við þennan forleigurétt. Þá getum við boðið hverjum sem er að taka húsnæðið á leigu,“ segir Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Rangárþings Eystra.

Töluverð óánægja hefur verið á meðal íbúa á Hvolsvelli með verðlag í versluninni Kjarval sem rekin er af Kaupási. Sjálfstæðismenn í sveitarstjórn, sem eru reyndar í minnihluta, hafa til dæmis viðrað þá hugmynd að stofnað verði almenningshlutafélag eða samvinnufélag og verslun bæjarins verði rekin af sveitarfélaginu svona eins og nokkurs konar kaupfélag. Íbúafundur var haldinn á Hvolsvelli um þessi verslunarmál um síðustu helgi. Ísólfur Gylfi segir að málin hafi bara verið rædd á fundinum og í sjálfu sér hafi engin sérstök niðurstaða fengist.

Að sögn Ísólfs Gylfa á sveitarfélagið verslunarhúsnæðið. Það var keypt af fasteignafélaginu Reitum.

„Þar með urðu Kaupásmenn leiguliðar hjá okkur og við erum búnir að segja þeim upp leigunni frá og með áramótum,“ segir Ísólfur Gylfi. „Inni í leigusamningum er hins vegar svokallaður forleiguréttur en hann er aðeins í gildi ef við ætlum að leigja húsnæðið áfram í verslunarrekstur. Þetta þýðir það að ef við auglýsum húsið laust til leigu þá eiga Kaupásmenn réttinn svo lengi sem þeir bjóða sama leiguverð og hæstbjóðandi.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .