Fasteignamarkaður Torontó í Kanada stendur frammi fyrir mestri hættu á því að vera í bólu. Aðrar borgir sem gætu verið í fasteignabólu eru Stokkhólmur, München, Vancouver, Sydney, London, Hong Kong og Amsterdam. Þetta kemur fram í nýrri greiningu svissneska bankans UBS .

UBS heldur úti vísitölu sem mælir hugsanlega bólumyndun á stærstu fasteignamörkuðum heims, einkum borgum með umfangsmikla fjármálastarfsemi. Útreikningar vísitölunnar taka meðal annars mið af einstaklingstekjum, leiguverði og nýbyggingum í samanburði við fasteignaverð.

Raunverð fasteigna í ofangreindum borgum (Torontó, Stokkhólm i , München, Vancouver, Sydney, London, Hong Kong og Amsterdam) hefur hækkað um nánast 50% að meðaltali síðan 2011 á meðan fasteignaverð í öðrum fjármálaborgum hafi hækkað um 15% á sama tímabili. Segir bankinn sundurleitnina vera úr öllu samræmi við hagvöxt og verðbólgu í löndum þessara borga. Í greiningu bankans kemur fram að víða sé mun meiri hætta á fasteignabólum í dag heldur en fyrir fmm árum síðan.

Samkvæmt greiningu UBS eru þrjár meginástæður fyrir hugsanlegri bólumyndun á fasteignamörkuðum ofangreindra borga:

  1. Sögulega lágir vextir
  2. Ásókn tekjuhárra einstaklinga í fasteignir sem eru miðsvæðis í viðkomandi borgum
  3. Umframeftirspurn eftir húsnæði, þ.e.a.s. framboðsskortur

Fasteignaverð í Torontó hefur tvöfaldast á síðustu 13 árum á meðan leiguverð hefur aðeins hækkað um 5%. Á síðastliðnum fimm árum hefur fasteignaverð í Torontó hækkað um 50%. Hækkandi fasteignaverð í Torontó, sem og Vancouver, einkennist af mikilli skuldsetningu, en stýrivextir kanadíska Seðlabankans lækkuðu niður í 0,5% eftir fjármálakreppuna og eru nú 1%. Einnig hefur aukningin í innflytjendum til Kanada aukið eftirspurn eftir húsnæði. Samkvæmt UBS er hætta á skyndilegu verðfalli á kanadíska fasteignamarkaðnum ef seðlabankinn þar í landi hækkar vexti eða ef kanadíski dollarinn styrkist. Þá gæti minnkandi bjartsýni meðal neytenda einnig sprengt bóluna.