Breytt landslag er víða um land í valdahlutföllum innan sveitarfélaga eftir kosningarnar á laugardag en samtals féllu 26 meirihlutar í þeim 72 sveitarfélögum sem kosið var í að því er RÚV greinir frá.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega um féll meirihluti Samfylkingar, Vinstri grænna og Pírata í Reykjavík, en ekki utan þess að Samfylking, Sósíalistar og Píratar hafi neitað að ræða við stærsta flokkinn, Samfylkingu eru allir sagðir vera að ræða við alla í höfuðborginni.

Sameinað sveitarfélag Garðs og Sandgerðis:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og H-lista Fólksins eru byrjaðir að ræða saman um myndun meirihluta í sameinuðu sveitarfélagi Garðs og Sandgerðis. Samhliða fór fram skoðanakönnun um nýtt nafn sveitarfélagsins en Heiðarbyggð fékk flest atkvæði.

Eftir að hafa haft hreinan meirihluta síðustu tvö kjörtímabil í Garði en einungis 17,55% atkvæða í Sandgerði fyrir fjórum árum náði Sjálfstæðisflokkurinn að verða stærstur í sameinuðu sveitarfélagi, með 34,5% atkvæða og þrjá bæjarfulltrúa. Var listi flokksins nú, leiddur af efstu mönnum á lista flokksins úr Garði og Sandgerði, í þeirri röð.

Samfylking sem hafði verið stærst í Sandgerði með 36,30% fyrir fjórum árum bauð ekki fram nú en efsti maður á lista J-lista Jákvæðs samfélags var bæjarstjóri Sandgerðisbæjar fyrir Samfylkinguna. Margir aðrir á listanum voru frá lista Samfylkingar og óháðra úr Sandgerði, en listinn fékk 29,2% atkvæða og þrjá bæjarfulltrúa.

H listi Fólksins fékk 19,7% og 2 bæjarfulltrúa, en sá listi hafði boðið sig fram í Sandgerði fyrir fjórum árum og fengið 19,71% atkvæða. Framsóknarflokkur og óháðir sem einnig hafði boðið fram í Sandgerði árið 2014 en ekki Garði hlaut nú 16,5% atkvæða og einn bæjarfulltrúa.

Akranes:

Þó Sjálfstæðisflokkurinn hafi náð hreinum meirihluta í bænum í kosningunum árið 2014 starfaði hann með Bjartri framtíð í meirihluta, sem ekki bauð sig fram nú.

Í kosningunum nú misstu Sjálfstæðismenn einn bæjarfulltrúa, en fengu fjóra með 41,4% atkvæða, Samfylking fékk þrjá með 31,2% og Framsókn og frjálsir fengu 2 með 21,8% atkvæða. Miðflokkurinn hlaut svo 5,7% atkvæða sem ekki dugði til að fá mann.

Nú herma fréttir að Framsókn og frjálsir séu komnir í formlegar viðræður við Samfylkinguna um myndun meirihluta í bæjarstjórn. Sævar Freyri Þráinsson tók við stöðu bæjarstjóra í bænum vorið 2017 en Samfylkingin hefur gefið það út að hún vildi ræða fyrst við hann komist framboðið í þá stöðu.

Árborg:

Meirihluti Sjálfstæðisflokksins féll í Árborg, en mikil umræða hefur verið í bænum um byggingu miðbæjar sem átti að vera byggður í gömlum klassískum stíl nokkurn veginn beint upp af hringtorginu þegar komið er inn í bæinn vestan frá. Sjálfstæðismenn voru með meirihluta en fengu nú 38,3% atkvæða og 4 menn af 9 í bæjarstjórn.

Herma fréttir að allir hinir flokkar fimm sem náðu inn mönnum ræði nú myndun meirihluta, en þar af Samfylkingin stærst með 2 menn en flokkurinn fékk 20,1% atkvæða. Hinir flokkarnir fengu allir einn mann, en skipting atkvæða var þannig að Framsókn og óðháðir fengu 15,5%, Miðflokkurinn 10,7% og framboðið Áfram Árborg fékk 8,5%.

Borgarbyggð:

Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar féll í bænum, missti hvor flokkur um sig einn bæjarfulltrúa. Áður höfðu Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn starfað saman í bænum en upp úr því samstarfi slitnaði um mitt kjörtímabil.

Framsóknarflokkur fékk 36,2% atkvæða og fjóra fulltrúa, Sjálfstæðisflokkur fékk 26,6% og tvo fulltrúa, Vinstri græn fengu 23,2% og 2 fulltrúa og Samfylking og óháðir fengu 14,0% og einn fulltrúa í kosningunum á laugardag.

Fjallabyggð:

Sjálfstæðisflokkurinn hafði verið í meirihluta með lista Jafnarmanna en hann bauð sig ekki fram nú. Sama gilti um Fjallabyggðarlistann og Framsóknarflokkinn. Bættu Sjálfstæðismenn við sig 15 prósentustigum í bænum frá fyrri kosningum og náðu 44,8% atkvæða og 3 fulltrúum, en framboðin Fyrir heildina og Betri fjallabyggð fengu tvo fulltrúa hvort, með 30,8% og 24,4% atkvæða.

Herma fréttir nú að Sjálfstæðisflokkur og Betri fjallabyggð hafi ákveðið að mynda meirihluta undir forystu Gunnars Birgissonar sem verið hefur bæjarstjóri síðan 2015. Hann var áður bæjarstjóri í Kópavogi. Hluti þeirra sem áður sátu á lista Jafnarmanna gengu til liðs við framboðið Betri fjallabyggð, en oddviti flokksins er nýr í bæjarstjórn.

Grindavík:

Meirihluti Sjálfstæðisflokks og lista Grindvíkinga féll en þau 9,4% atkvæða sem sá síðarnefndi fékk dugði ekki fyrir sæti í bæjarstjórn nú. Sjálfstæðisflokkurinn er áfram stærstur með 33,5% atkvæða og þrjá bæjarfulltrúa af sjö, þó hann hafi misst um 9 prósentustig. Hin fjögur framboðin sem náðu inn hafa nú ákveðið að hefja formlegar viðræður.

Framsóknarfélag bæjarins, Miðflokkurinn, Samfylkingin og Rödd unga fólksins fengu einn mann hver. Þar af var sá síðastnefndi stærstur með 19,2% atkvæða, en Samfylkingin minnst með 10,5%. Framsókn og Miðflokkur fengu svo svipað mikið eða 13,8% og 13,6% atkvæða.

Grundarfjörður:

Meirihluti Samstöðu féll í bænum en Sjálfstæðismenn náðu nú hreinum meirihluta.

Hafnarfjörður:

Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar, sem ekki bauð sig fram nú, féll formlega, en fulltrúi síðarnefnda flokksins bauð sig fram undir merkjum L lista Bæjarlistans í Hafnarfirði og náði hann einu sæti í bæjarstjórn með 7,8% atkvæða. Gætu því Sjálfstæðismenn og L listi því myndað meirihluta sex sæta af 11, þar sem Sjálfstæðismenn fengu fimm bæjarfulltrúa með 33,7% atkvæða.

Samfylkingin fékk 2 fulltrúa með 20,1% atkvæða, en önnur framboð fengu einn, það er Vireisn með 9,5%, Framsókn og óháðir með 8,0% og Miðflokkurinn með 7,6%. Hvorki Vinstri græn né Píratar náðu inn í bæjarstjórn, en þau fengu 6,7% og 6,5% atkvæða í bænum.

Ísafjarðarbær:

Ísafjarðarlistinn hafði verið með hreinan meirihluta í bænum frá síðustu kosningum en missti hann nú með 43,0% atkvæða og 4 fulltrúa. Náðu Framsóknarmenn að bæta við sig einum manni, með 22,4% atkvæða og fékk flokkurinn tvo fulltrúa. Sjálfstæðismenn fengu 34,6% atkvæða og þrjá fulltrúa.

Norðurþing (Húsavík og nágrenni):

Sjálfstæðismenn og Vinstri græn höfðu verið í meirihluta í sveitarfélaginu Norðurþing, sem inniheldur Húsavík, frá síðustu kosningum, en nú misstu Vinstri græn annan af tveimur bæjarfulltrúum sínum, en flokkurinn fékk 15,0% atkvæða. Fréttir herma að nú séu hafnar viðræður flokkanna tveggja ásamt fulltrúa Samfylkingar sem fékk 14,4% atkvæða og einn bæjarfulltrúa.

Sjálfstæðismenn fengu 30,1% og 3 bæjarfulltrúa en það gerði listi Framsóknar og félagshyggjufólks einnig, með 26,4% atkævða. E listi samfélagsins fékk einnig einn fulltrúa með 14,1% atkvæða.

Rangárþyng Eystra:

Framsóknarmenn og aðrir framfarasinnar misstu fjórða mann sinn í sjö manna sveitarstjórn og þar með meirihluta sinn.

Reykjanesbær:

Bein leið og Frjálst afl misstu sinn hvorn bæjarfulltrúann af tveimur sem framboðin höfðu áður, með 13,5% og 8,3% atkvæða. Það þýðir að flokkarnir geta ekki myndað áfram meirihluta með Samfylkingu sem áður hafði einnig haft tvo bæjarfulltrúa en bætti nú við sig þriðja manni með 20,5% atkvæða.

Sjálfstæðisflokkurinn varð á ný stærstur í bænum með 22,9% atkvæða og þrjá bæjarfulltrúa, en Framsóknarflokkurinn fékk tvo fulltrúa með 13,9% atkvæða en Miðflokkurinn einungis einn fulltrúa með 13,0% atkvæða. Framsókn er nú komið í viðræður við Samfylkingu og Beina leið um myndun nýs meirihluta í bænum.

Seyðisfjörður:

Seyðisfjarðarlistinn vann stórsigur í bænum með 53% fylgi sem er mikil aukning frá um fimmtungi atkvæða fyrir fjórum árum. Náði listinn nú hreinum meirihluta með fjórum bæjarfulltrúum en Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur sem höfðu áður myndað meirihluta misstu hvor um sig einn af tveimur bæjarfulltrúum.

Hornafjörður:

Framsóknarflokkurinn náði meirihluta í sveitarfélaginu með 55,7% atkvæða og fjórum bæjarfulltrúum, en áður hafði Sjálfstæðisflokkur sem fékk nú 29,7% og 2 bæjarfulltrúa og E listi 3. framboðsins sem fékk 14,6% og einn bæjarfulltrúa myndað meirihluta.

Ölfus:

Sjálfstæðisflokkurinn náði meirihlutanum í sveitarfélaginu Ölfus sem inniheldur Þorlákshöfn af O lista Framfarasinna og félagshyggjufólks í kosningunum nú með 51,9% atkvæða og fjóra bæjarfulltrúa á móti 48,1% og þremur bæjarfulltrúum. Munaði akkúrat 40 atkvæðum á framboðunum tveimur.

Vestmannaeyjar:

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um féll meirihluti Sjálfstæðismanna í bænum með 6 atkvæðum, en fyrir fjórum árum hafði Elliði Vignisson bæjarstjóri náð atkvæðum 75% kjósenda.

Vesturbyggð:

Listi Nýrrar Sýnar felldi meirihluta Sjálfstæðisflokks í Vesturbyggð, en flokkurinn hafði verið einn í framboði fyrir fjórum árum.

Vogar:

Listi fólksins missti þrjá af fjórum bæjarfulltrúm sínum í sveitarfélaginu á Vatnsleysuströnd og þar með meirihluta sinn. Framboðsfélag E- listans náði nú meirihluta, en það hafði ekki boðið fram árið 2014.