*

mánudagur, 26. júlí 2021
Innlent 13. maí 2013 16:58

Viðar svarar Jóhannesi fullum hálsi

Forstjóri Valitor segir Kortaþjónustuna hafa ekki setið snauða eftir í samkeppninni á kortamarkaðnum.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor, segir að þótt Kortaþjónustan gefi í skyn að fyrirtækið hafi skaðast af framgöngu Valitor á árunum 2007 til 2009 sé sannleikurinn annar. Afkoma Kortaþjónustunnar hafi verið prýðisgóð á þessum tíma og bendir hann á að arðsemi eigin fjár Kortaþjónustunnar á árunum 2007 til 2010 hafi verið eins og best gerist í íslensku viðskiptalífi.

Kemur þetta fram í yfirlýsingu sem Viðar sendi frá sér í þessu, en tilefni skrifanna er tilkynning Jóhannesar Inga Kolbeinssonar, framkvæmdastjóra Kortaþjónustunnar, frá því fyrr í dag. Þeir Viðar og Jóhannes hafa skipst á skotum allt frá því að Samkeppniseftirlitið ákvað að sekta Valitor um 500 milljónir króna vegna brota á samkeppnislögum fyrir réttum mánuði síðan.

Yfirlýsing Viðars hljóðar svo:

„Jóhannes Ingi Kolbeinsson, framkvæmdastjóri Kortaþjónustunnar, sendir í dag frá sér fréttatilkynningu. Þar leiðbeinir hann m.a. Samkeppniseftirlitinu góðfúslega um hvernig það eigi að haga sínum störfum og vandar stjórnendum Valitor ekki kveðjurnar.

Valitor ekki í samkeppni við Kortaþjónustuna

„Um er að ræða gamalt mál sem snýst um samkeppni í færsluhirðingu á Íslandi frá árinu 2007 fram á mitt ár 2009. Ágreiningur er um hvernig eigi að túlka samkeppnislög á þessum tíma og hefur málið verið kært til afrýjunarnefndar samkeppnismála. Valitor hefur verið stillt upp sem fyrirtæki er neytt hafi aflsmunar í samkeppni við minna fyrirtæki, Kortaþjónustuna, á þessum tíma. Valitor mótmælir þessari túlkun og bendir á þá staðreynd að fyrirtækið var alls ekki í samkeppni við Kortaþjónustuna, heldur við Teller, 15 sinnum stærra fyrirtæki en Valitor og eitt af stærstu fyrirtækjum sinnar tegundar í Evrópu. Rökin eru þessi:

  1. Kortaþjónustan var ekki færsluhirðir á umræddu tímabili heldur einungis söluskrifstofa fyrir erlenda risafyrirtækið Teller og allir samningar hér á landi voru í nafni Teller. 
  2. Allar færslur við hérlenda söluaðila voru sendar úr landi til heimalands Teller, Danmerkur, þar sem þær voru unnar.  
  3. Kortaþjónustan var ekki með nauðsynlegt leyfi sem fjármálastofnun á Íslandi á umræddu tímabili en slíkt leyfi þarf til að vera færsluhirðir. 
  4. Kortaþjónustan hafði ekki tilskilið leyfi frá alþjóðlegu kortasamsteypunum, það hafði hins vegar Teller.

Þá féll tjaldið

„Munurinn á íslenskum færsluhirðingarfyrirtækjum og erlendum kom vel í ljós þegar mest á reyndi í kjölfar hrunsins 2008 og flestar dyr lokuðust á Íslendinga. Þá tókst Valitor og Borgun með erfiðismunum að halda uppi eðlilegri þjónustu og gera reglulega upp við sína viðskiptavini. Teller lét sig hins vegar ekki varða meira um íslenska hagsmuni en svo að röskun, jafnvel upp á margar vikur, varð á greiðslum til hérlendra fyrirtækja með tilheyrandi afleiðingum fyrir sum þeirra. Kortaþjónustan gat hins vegar ekki axlað ábyrgð þegar mest á reyndi. Ásæðan var einföld: Fyrirtækið var ekki íslenskur færsluhirðir á umræddu tímabili og þar með ekki hluti af öryggisneti íslenska kerfisins.

Afkoman betri en af er látið

„Það hefur holan hljóm þegar Kortaþjónustan kvartar sáran undan framgöngu Valitor á fyrrgreindu tímabili og gefur í skyn að fyrirtækið hafi skaðast af hennar völdum og setið eftir „snautt“. Sannleikurinn er nefnilega sá að afkoma Kortaþjónustunnar var prýðisgóð á þessum tíma. Þar nægir að benda á að arðsemi eigin fjár Kortaþjónustunnar á árunum 2007-2010 var eins og best gerist í íslensku atvinnulífi. Hins vegar kann vel að vera að Kortaþjónustan hafi ekki náð þeim markmiðum sem að var stefnt. Slíkt mat lýtur að viðskiptalíkani fyrirtækisins og samningum um söluþóknum við Teller. Því er við að bæta að hinn raunverulegi keppinautur, Teller, hefur aldrei kært Valitor enda ekki undan neinu að kvarta í samkeppni við miklu minna fyrirtæki.

Krafa um skýrar leikreglur

„Valitor hefur kært Teller fyrir ólöglegar viðskiptahindranir og einbeittan brotavilja á danska markaðnum þar sem þarlend yfirvöld slá skjaldborg um yfirgnæfandi markaðshlutdeild Teller. Það hlýtur að vera sanngjörn krafa að sömu reglur gildi um alþjóðlega samkeppni í öllum löndum evrópska efnahagssvæðisins þ.m.t. á Íslandi og í Danmörku. Valitor er eindregið fylgjandi samkeppni á jafnréttisgrundvelli. Fyrirtækið fagnar því hugmyndum um aðkomu ríkisvalds að skilgreiningu á markaði, skilvirkni hans og hagkvæmni til þess að gæta hagsmuna íslenskrar greiðslumiðlunar og íslensks almennings.“