Í umræðunni um ágreining Samkeppniseftirlitsins og Valitor vegna meintra brota Valitor á árunum 2007 til 2008 hefur verið litið framhjá þeirri staðreynd að Valitor var ekki í beinni samkeppni við Kortaþjónustuna í færsluhirðinguna á þessum tíma heldur erlenda risafyrirtækið á bak við íslenska nafnið, að sögn Viðars Þorkelsonar, forstjóra Valitor.

Í grein sem Viðar skrifar í Fréttablaðið í dag segir hann að skandínavíska færsluhirðingarfyrirtækið Teller sé eitt af stærstu fyrirtækjum sinnar tegundar í Evrópu og að velta þess sé um fimmtánföld velta Valitor. „Teller dafnar vel í skjóli yfirgnæfandi markaðshlutdeildar í Danmörku með fulltingi yfirvalda þar í landi og er að auki með yfirburðastöðu á mörkuðunum í Noregi og Finnlandi.“

Viðar segir að árið 2002 hafi þetta erlenda risafyrirtæki haldið innreið sína inn á íslenska markaðinn, ekki þó undir eigin nafni, heldur undir nafninu Kortaþjónustan, sem hafi í raun verið söluskrifstofa fyrir Teller hér á landi. „Allar færslur voru að sjálfsögðu sendar úr landi til Danmerkur enda var Teller hinn raunverulegi færsluhirðir en ekki Kortaþjónustan.“

Hann segir að það hafi því holan hljóm þegar Kortaþjónustan kvarti sáran undan samkeppninni við Valitor eins og fram hafi komið nýverið í fréttatilkynningu Kortaþjónustunnar.

Valitor hefur kært Teller

„Sannleikurinn er nefnilega sá að Valitor keppti ekki við Kortaþjónustuna í færsluhirðingu 2007-2008 heldur við erlenda risann, Teller, á bak við íslenska nafnið. Hinn raunverulegi keppinautur, Teller, hefur á hinn bóginn aldrei kvartað undan samkeppninni við Valitor enda ekki undan neinu að kvarta í samkeppni við 15 sinnum minna fyrirtæki. Samkeppniseftirlitið virðist hins vegar enn ekki hafa áttað sig á þessu sjónarspili og hefur gengið langt í að vernda hagsmuni erlenda risans á kostnað Valitor. Þó að skýrt liggi fyrir að Valitor, Teller og Borgun voru einu fyrirtækin sem kepptu á íslenska færsluhirðingarmarkaðnum á umræddum tíma, kýs Samkeppniseftirlitið einatt að stilla söluskrifstofunni, Kortaþjónustunni, upp sem keppinaut Valitor en ekki hinum raunverulega keppinaut, risanum Teller.“

Segir Viðar að í Danmörku hafi Teller um 85% markaðshlutdeild í færsluhirðingu en til samanburðar hafi Valitor rúmlega 40% markaðshlutdeild í færsluhirðingu á sínum heimamarkaði á Íslandi.

„Því er við að bæta að Valitor hefur kært Teller fyrir ólöglegar viðskiptahindranir á danska markaðnum en félagið hefur rekið þar eigin skrifstofu frá árinu 2008. Valitor fagnar allri samkeppni sem er á jafnréttisgrunni. Það hlýtur að vera sanngjörn krafa að sömu reglur gildi um alþjóðlega samkeppni í öllum löndum evrópska efnahagssvæðisins þ.m.t. á Íslandi og í Danmörku,“ segir Viðar að lokum.