Viðauki við útboðslýsingu hlutafjárútboðs Eimskips hefur verið birtur. Á morgun hefst almennt útboð á 5% hlut í félaginu og mögulega 3% hlut til viðbótar ef umframeftirspurn mælist. Almenna útboðinu lýkur á föstudaginn, 2. nóvember.

Viðaukinn fjallar um þá ákvörðun sex lykilstjórnenda um að falla frá kaupréttasamningum sem þeir héldu um. Eins og fram hefur komið gerðu margir fagfjárfestar sem tóku þátt í lokuðu áskriftarferli að 20% hlut fyrirvara um að kaupréttirnir yrðu felldir úr gildi.

Tveir af þremur stærstu lífeyrissjóðum landsins, Gildi og LSR, ákváðu að taka ekki þátt í útboðinu vegna kaupréttanna. Fram hefur komið að Festa lífeyrissjóður hefur óskað eftir því að fjármálaeftirlitið rannsaki áskriftarferlið. Sjóðurinn telur að fjárfestar hafi ekki allir setið við sama borð. Sumum fjárfestum hafi verið gefinn kostur á að gera tilboð með fyrirvara um að kaupréttasamningasamningar yrðu felldir úr gildi, líkt og raunin varð.

Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips, segir að allir hafi setið við sama borð og að félagið hafi allt sitt á kláru. Málið breyti engu um niðurstöðu útboðsins. Hann segir að fjárfestum hafi verið frjálst að gera fyrirvara við tilboð sín og að fyrirvarar um kauprétti hafi verið orðaðir á ýmsa vegu.

Stjórnendurnir sex féllu frá kaupréttum laust fyrir klukkan sex á fimmtudag í síðustu viku. Skömmu síðar var tilkynnt um ákvörðun þeirra og niðurstöðu útboðsins þar sem umframeftirspurn var um 50%. Tilboðum var tekið fyrir 8.340 milljónir króna á verðinu 208 krónur á hlut.

Uppfært klukkan 16:48:
Í upphaflegri frétt Viðskiptablaðsins sagði að viðaukinn yrði birtur í fyrramálið. Hann hefur nú verið birtur og má finna hér .