Niðurskurður í flugáætlun Wow air kom ekki fram að fullu í janúar, þrátt fyrir að ferðum félagsins hafi fækkað um nærri 12%. Viðbót hjá samkeppnisaðilanum Icelandair í janúar vó að mestu upp samdrátt Wow air en í heildina fækkaði áætlunarferðunum um ríflega 1%. Túristi greinir frá þessu.

Þó ber að hafa í huga að breiðþotur voru nýttar í stóran part af þeim flugum sem hurfu af áætlun Wow air. Sætisframboð í flugi hingað til lands drógst því líklega meira saman en sem nemur þessu 1%. Spá Isavia fyrir janúar, sem birt var í síðustu viku, gerir aðeins ráð fyrir því að fjöldi ferðamanna í janúar dragist saman um 0,3 prósent.

Úrval áfangastaða var þó nokkuð minna í janúar mánuði síðasliðnum. Voru engar ferðir til Aberdeen, Belfast, Birmingham, Miami og Tel Aviv, auk þess sem ferðunum fækkaði til Los Angeles, San Francisco, Chicago og fleiri borga. Á móti kom þó að Indlandsflug Wow air var starfrækt hluta af janúar auk þess sem félagið flýgur til Detroit í Bandaríkjunum allt árið um kring.

Meðal helstu tíðinda af erlendu flugfélögunum voru að Finnair fjölgaði ferðunum sínum frá Helsinki um 9 en British Airways fækkaði ferðum sínum frá London Heathrow um 10. Að öðru leyti var flug þeirra erlendu í föstum skorðum.