Steinunn Þorsteinsdóttir upplýsingafulltrúi Landsnet segir viðbótarkostnað við að leggja Lyklafellslínu 1 í jörð nema um 5 milljörðum króna. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi í gær úr gildi framkvæmdaleyfi Hafnafjarðarbæjar um lagningu línunnar á þeirri forsendum að ekki hafi nægilega verið sýnt fram á að jarðstrengskostir væru ekki raunhæfir.

Þannig hafi ekki verið gerður nægilegur samanburður á umhverfisáhrifum þeirra og aðalvalkostinum að leggja háspennulínu í lofti að mati nefndarinnar. Það voru Hraunavinir og Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands sem kærðu veitingu framkvæmdaleyfisins.

Hægt að leggja í vegstæði Bláfjallavegar

Steinunn segir að jarðstrengskostirnir hafi þvert á móti verið skoðaðir og lagðir fram í ítarlegri viðbótarskýrslu þar sem fram hafi komið að það væri tæknilega framkvæmanlegt að leggja jarðstreng eftir vegstæði Bláfjallavegar. Það væri hins vegar fjórum sinnum dýrari en loftlínan.

„Viðbótarkostnaðurinn nemur rúmum 5 milljörðum króna sem eru verulegir fjármunir. Samkvæmt raforkulögum og með hliðsjón af stefnu stjórnvalda um lagningu raflína í jörðu eru engir jarðstrengskostir sem koma til greina á þessari leið,“ segir Steinunn í fréttatilkynningu frá Landsneti.

Mat sveitarfélaganna á mismunandi leiðum ekki nóg

„Úrskurðurinn gefur nýjar leiðbeiningar, sem ekki hafa komið fram í tengslum við síðustu línuframkvæmdir, um að þurft hafi álit Skipulagsstofunnar á viðbótargögnum sem lögð eru fram til að styðja við framkvæmdaleyfið og að sjálfstætt mat sveitarfélaganna á niðurstöðunum sé ekki nægjanlegt.“

Segir Steinunn óhjákvæmilegt að frestun verði á lagningu línunnar og tengdum framkvæmdum og lýsir hún yfir vonbrigðum sínum með niðurstöðu nefndarinnar.

Flutningur forsenda um 520 íbúða í Skarðshlíðarhverfi

Sama gera bæjaryfirvöld í Hafnarfirði en Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri segir lagningu Lyklafellslínu forsendu þess að hægt verði að fjarlægja Hamraneslínur og flytja Ísallínur. „Úrskurðurinn er áfall fyrir sveitarfélagið og ljóst að áratuga bið eftir því að línurnar hverfi úr Skarðshlíð og Hamranesi styttist ekki við þennan úrskurð,“ segir Haraldur en upphaflega höfðu verklok átt að vera í síðasta lagi í fyrra.

Hafnarfjarðarkaupstaður hefur fjárfest í mikilli uppbyggingu á svæðinu ásamt lóðarhöfum á svæðinu en gert er ráð fyrir um 520 íbúðum í Skarðshlíðarhverfinu einu og sér og þar er verið að byggja grunn- leik- og tónlistarskóla ásamt íþróttasal fyrir um fjóra milljarða króna.

„Það var svo í upphafi þessa kjörtímabils, sem undirritaður var nýr samningur á milli Hafnarfjarðarkaupstaðar og Landsnets þar sem við töldum að of langt væri að bíða til ársins 2020 að línurnar færu“ segir Haraldur en samkvæmt honum á að rífa Hamraneslínu fyrir árslok 2018.

„Frá því að nýr samningur var undirritaður árið 2015 hafa bæjaryfirvöld barist fyrir því að staðið væri við samninginn og framkvæmdir hæfust.“