Frá ársbyrjun 2012 hafa 28 þúsund erlendir ríkisborgarar flutt til landsins umfram þá sem fluttu frá því af sama hópi, eða samsvarandi þeim 30 þúsund manns sem búa í Hafnarfirði, að því er Morgunblaðið segir frá uppúr tölum Hagstofunnar.

Þrátt fyrir fall Wow air snemma í vor hefur straumurinn haldið áfram, en á öðrum ársfjórðungi fluttu 2.070 fleiri erlendir ríkisborgarar til landsins en 1.050 þeirra fluttu frá landinu. Halldór Kári Sigurðsson sérfræðingur í greiningardeild Arion banka segir þetta koma á óvart.

„Um 2.400 erlendir ríkisborgarar hafa flutt til landsins umfram brottflutta á fyrri helmingi ársins þrátt fyrir að atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara sé komið upp í 7,4%,“ segir Halldór Kári en bendir á lítið atvinnuleysi hér á landi í alþjóðlegu samhengi.

Þessi um 1.020 erlendu ríkisborgarar umfram brottflutta er þó minni innflutningur á ársfjórðungnum en árin 2016, þegar þeir voru 1.330, 2017, þegar þeir voru 3.130 og 2018, þegar þeir voru 1.750. Í heildina er þó fjöldinn á fyrri helmingi ársins svipaður og var á sama tíma árið 2016, og horfir til þess að innflutningurinn geti verið á árinu einn sá mesti í sögu landsins.

Eins og áður sagði hafa 28 þúsund fleiri erlendir ríkisborgarar flutt til landsins en frá því frá árinu 2012, en frá aldamótunum er aukningin í þessum hóp 47 þúsund. Á sama tíma fjölgaði landsmönnum um 80 þúsund, úr 279.049 árið 2000, í 360.390 um mitt þetta ár.

Á þessu tímabili hefur það einungis gerst þrjú ár að fleiri íslenskir ríkisborgarar flytji til landsins en frá því, eða árin 2000, 2005 og 2017, en í ár megi áætla að 400 fleiri þeirra flytji frá landinu en til.