Stefnt er að því að staðsetja löggæslu og viðbragðsaðila á höfuðborgarsvæðinu á einn stað til að auka samstarf þeirra á milli með samnýtingu og hagræðingu í húsnæðismálum. Framkvæmdasýsla ríkisins, FSR, auglýsir nú eftir 30.000 fermetra lóð eða húsnæði á höfuðborgarsvæðinu fyrir verkefnið.

FSR hefur undanfarið ár starfað með fjármála- og dómsmálaráðuneyti að hugmyndum um sameiginlegt húsnæði fyrir alla helstu viðbragðsaðila landsins, eru það:

  • Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu
  • Ríkislögreglustjóri
  • Landhelgisgæslan
  • Slysavarnarfélagið Landsbjörg
  • Tollgæslan
  • Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins
  • Neyðarlínan 112

Forathugun FSR einskorðaðist í upphafi við að finna hentugt húsnæði fyrir löggæsluaðila. Verkefnið var síðan stækkað og gert ráð fyrir öllum viðbragðsaðilum á einum stað. Fyrr á þessu ári var aukinn þungi settur í verkefnið, enda hefur mikið mætt á viðbragðsaðilum það sem af er árinu 2020 og þörfin fyrir hentugt og nútímalegt húsnæði varð ljós.

Markmið verkefnisins er að finna hagkvæma lausn á húsnæðismálum viðbragðsaðila til framtíðar. Í forathugun er meðal annars skoðuð samlegð sem fólgin er í því að staðsetja löggæslu og viðbragðsaðila á höfuðborgarsvæðinu á einum stað. Ljóst er að með því fyrirkomulagi er unnt að auka samstarf þeirra á milli auk þess sem samnýting rýma yrði talsverð.

Í fréttatilkynningu FSR segir að nýtt húsnæði verði hagnýtara og svari betur kröfum nútímans en húsnæði sem þessir aðilar hafa nú yfir að ráða. Þá er ljóst að á ögurstundu er mikill kostur að þeir aðilar sem vernda líf og eignir landsmanna séu staðsettir í sama húsnæðinu.

Kynningarfundur verður haldin fimmtudaginn 2. júlí í fundarsal við Skúlagötu 4 (Sjávarútvegshúsið) kl. 14:00 og einnig í gegnum fjarfundarkerfi Microsoft TEAMS. Skráning þátttakenda er í gegnum netfangið [email protected].