*

laugardagur, 8. ágúst 2020
Fólk 12. janúar 2020 18:01

Viðbrigði að koma úr banka

Rakel Óttarsdóttir, nýr framkvæmdastjóri hjá Össuri, var tilbúin að gera nýja hluti eftir mörg ár í banka. Jákvætt viðhorf viðbrigði.

Höskuldur Marselíusarson
Nýr framkvæmdastjóri upplýsingatæknisviðs og alþjóðlegrar verkefnastofu Össurar hafði starfað ásamt eiginmanni sínum í mörg ár í banka þar til það þótti ekki lengur heppileg staða. Nýtur frítímans í tjaldútilegum í óbyggðum, í golfi og passa barnabörn.
Gígja Einars

„Starfið hér hjá Össuri verður að því leitinu til svipað og ég hef verið að gera í Arion banka síðustu ár að ég er að stýra upplýsingatæknisviði og verkefnastofu fyrirtækisins, en þetta er auðvitað í heilbrigðisgeira þar sem verið er að framleiða hluti sem virkilega bæta líf fólks,“ segir Rakel Óttarsdóttir sem tekið hefur við stjórn upplýsingatæknisviðs og alþjóðlegrar verkefnastofu Össurar.

„Þetta nýja starf hefur spennandi alþjóðlegan vinkil sem verða mikil viðbrigði frá bankanum, enda starfar Össur í 26 löndum og er með viðskiptavini út um allan heim. Ég hef fundið það mjög sterkt hvað fólk er jákvætt út í Össur enda svakalega flott fyrirtæki, en það eru mikil viðbrigði frá því neikvæða viðhorf sem maður heyrir því miður oft um bankastarfsemi.“

Eiginmaður Rakelar er Gísli Óttarsson framkvæmdastjóri áhættustýringar í Arion banka, en hann á fjögur uppkomin börn og fimm barnabörn. „Við vorum bæði búin að vera framkvæmdastjórar í bankanum í mörg ár en svo þótti það ekki lengur heppileg staða að vera með hjón í framkvæmdastjórn. Mér þótti þetta góður tími til breytinga og ákvað að fara að gera eitthvað allt annað,“ segir Rakel. Hún segir það hálfgerða tilviljun að hún hafi farið inn í fjármálastarfsemi á sínum tíma.

„Ég lærði tölvunarfræði í háskólanum, þá vorum við einhverjar fimm konur af um 100 manns sem byrjuðu í náminu, en í dag skilst mér að hlutfall kvenna í þessu námi sé orðið yfir þriðjungur. Ég fékk áhugann eftir að hafa tekið forritunarkúrs í Verzló og gat notað hann í sumarvinnu hjá fyrirtæki pabba til að búa til lítið forrit sem flýtti fyrir okkur við að fylla út útflutningsskjöl sem þurfti áður að vélrita 10 eða 20 sinnum á kalkípappír. Eftir námið fór ég svo að vinna hjá tölvufyrirtækinu Libra við að forrita verðbréfakerfi en þá var íslenski verðbréfamarkaðurinn að komast í gang og verið að þróa kerfi sem notuð eru í öllum bönkum og fjármálafyrirtækjum á landinu í dag.“

Rakel segir það gefa sér mikið að fá að upplifa ömmuhlutverkið, og var mikið líf og fjör á heimilinu yfir hátíðarnar en þess utan býr ein dóttirin á heimilinu ásamt fimm ára dóttur hennar sem oft er í pössun hjá ömmu og afa.

„Við hjónin tókum hana með í útilegu í sumar en við förum oft í jeppaferðir upp á hálendið og ferðumst mikið um landið. Okkur finnst mjög gaman að tjalda í óbyggðum enda höfum við komið okkur upp góðum útilegugræjum. Í sumar tjölduðum við til dæmis eina nótt langt utan alfaraleiðar, við svokallaða Hitulaug norðan við Gæsavatnaleið. Síðan höfum við líka gaman af því að fara í golf.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.