Viðbúið er að fjöldi safna í Washington í rekstri hins opinbera loki nái þingmenn ekki saman um fjárlög fyrir miðnætti. Þar á meðal er Smithsonian-safnið, Helfararsafnið, bandaríska listasafnið í borginni og dýragarðurinn þar.

Það helsta sem situr í þingmönnum eru útgjöld til heilbrigðisáætlunar Baracks Obama, forseta Bandaríkjanna. Deilur um áætlunina hafa jafnframt tafið fyrir því að hægt er að samþykkja fjárlög ársins.

Nái þeir ekki saman um fjárlögin verða ríkisstarfsmenn í söfnunum sendir heim í tímabundið orlof og loka söfnin og annar ríkisrekstur, sem kveður mest að í Washington. Það er undir öldungardeildarþingmönnum að ákveða hvaða starfsmenn verða sendir heim.

Borgarblaðið The Washington City Paper segir það oftsinnis hafa komið fyrir að þingheimur nái saman um fjárlög á elleftu stundu og nefnir sem dæmi að árð 2010 hafi sátt náðst um fjárlögin klukkustund fyrir settan lokafrest, þ.e. klukkan ellefu að kvöldi til. Það hefur þó ekki alltaf gengið eftir en í desember árið 1995 og í janúar árið eftir hafi söfnum í borginni verið lokað í 21 dag.