Fyrirtæki, sem starfar í viðburðageiranum og skipuleggur mannamót, á ekki rétt á lokunarstyrk vegna heimsfaraldurs kórónaveirunnar. Félagið taldi að sér hefði verið skylt að skella í lás vegna sóttvarnaraðgerða en Skatturinn og yfirskattanefnd voru á öðru máli.

Félagið sendi beiðni til Skattsins síðasta sumar og óskaði eftir lokunarstyrk en því var hafnað. Skatturinn byggði á því að starfseminn félli undir tölulið sóttvarnarreglna sem hefði sætt fjölda- og nálægðartakmörkunum á opnunartíma. Henni yrði ekki jafnað til íþróttaleikja, starfsemi hárgreiðslustofa, snyrtistofa eða íþróttastarfsemi.

Sú niðurstaða var kærð til yfirskattanefndar. Taldi félagið að þar sem það skipulegði viðburði og mannamót, sem eðli málsins samkvæmt fæli í sér hættu á snertingu milli fólks eða mikillar nálægðar, ætti það rétt á styrknum. Vafa yrði að túlka rekstraraðila í hag og ekki gengi að túlka ákvæði sóttvarnaauglýsingar með þrengjandi hætti.

Í niðurstöðu yfirskattanefndar sagði að ákvæði auglýsingarinnar veitti nokkuð rúmt svigrúm til mats á því hvað félli innan hennar eða utan. Samkvæmt umræddri auglýsingu væri ljóst að starfsemi sem fylgdi hætta á snertingu og þar með aukna smithættu ætti að vera óheimil.

Að mati nefndarinnar þótti ekki unnt að jafna starfsemi félagsins við þjónustu sem skylt var að loka á gildistíma auglýsingarinnar. Hún félli mun betur að starfsemi sem sætt hefði fjöldatakmörkunum, á borð við ráðstefnur, málþing og skemmtanir.

„Verður að telja að þetta eigi við um starfsemi kæranda þótt ekki sé efast um að með fjöldatakmörkunum […] hafi grundvelli verið í reynd verið kippt undan ýmsum viðburðum á vegum félagsins,“ segir í úrskurðinum. Þrátt fyrir þá staðreynd þá væru lögin afdráttarlaus um að aðeins bæri að greiða lokunarstyrk til aðila sem hefðu þurft að skella í lás samkvæmt auglýsingunni. Var kröfu félagsins því hafnað.