*

þriðjudagur, 30. nóvember 2021
Erlent 26. september 2020 18:02

Viðburðaríkt ár hjá Nikola & Tesla

Framkvæmdastjóri Nikola sagði af sér og framkvæmdastjóri Tesla kynnti nýja rafhlöðutækni.

Júlíus Þór Halldórsson
Trevor Milton, stofnandi og framkvæmdastjóri Nikola, sagði af sér á mánudag. Elon Musk, stofnandi og framkvæmdastjóri Tesla, hélt árlegan svokallaðan rafhlöðudag og aðalfund félagsins á þriðjudag.
epa

Nafni serbneska uppfinningamannsins Nikola Tesla er haldið vel á lofti þessa dagana. Rafbílaframleiðandinn Tesla kynnti í fyrradag framtíð rafhlöðutækni sinnar, en félagið mun á næstu árum hefja framleiðslu eigin rafhlaða, sem verða ódýrari, orkuþéttari og endingarbetri.

Rafbílaframleiðandinn Nikola hefur svo verið fyrirferðarmikill í fréttum síðustu daga vegna ásakana um að hafa blekkt fjárfesta, og afsögn stofnanda og framkvæmdastjóra félagsins, Trevors Milton, í kjölfarið.

Hlutabréf beggja fyrirtækja hafa margfaldast það sem af er ári, en einnig sveiflast gríðarlega. Nikola hóf árið í rúmum 10 dölum á hlut og fór hæst í rétt tæpa 80 um miðjan júní, en stóð við lokun markaða í gær í 19,5 eftir 43% fall í síðustu viku.

Flókin svikamylla“ sem miklar gjörðir sínar
Skortsalinn og greiningaraðilinn Hindenburg Research leggur fram ásakanirnar á hendur Nikola í nýlegri skýrslu um málið.

Í 67-blaðsíðna skýrslunni er félaginu meðal annars lýst sem „flókinni svikamyllu“, og það sakað um að hafa talið fjárfestum trú um að tækni þess væri mun lengra á veg komin en raunin væri, auk þess að gefa í skyn að mun stærri hluti hennar væri eign og uppfinning félagsins.

Hindenburg hefur upplýst um að hafa tekið skortstöðu gegn Nikola, og hefur því beina fjárhagslega hagsmuni af fallandi verði hlutabréfa þess.

Rafbílaframleiðandinn neitar ásökunum skortsalans, og segir skýrsluna ranga. Milton sagðist með afsögninni vilja gera félaginu kleift að einbeita sér að rekstrinum. Afsögnin tekur þegar í stað gildi, en hann segist munu verjast fölskum ásökununum.

Að framleiða eða framleiða ekki eigin rafhlöður
Eitt af því sem Milton er legið á hálsi fyrir í skýrslu Hindenburg er að hafa á frumútboðsdegi í júní síðastliðnum sagt félagið hafa frá upphafi „gert eigin rafhlöður“, en fram hefur komið síðan þá að það hyggist kaupa rafhlöður af tæknifyrirtækinu Romeo Systems.

Tesla notar í dag rafhlöður frá raftækjarisanum Panasonic, en meðal þess sem tilkynnt var á rafhlöðudeginum á þriðjudaginn voru fyrirætlanir um að framleiða eigin rafhlöður. Með því, ásamt nýrri tækni á því sviði, muni nást fram verulegur sparnaður, auk þess sem þær muni geta geymt meiri raforku og þar með aukið drægni bílanna um 16%.

Með nýrri hönnun og nýjum hráefnum sagði Elon Musk kostnað rafhlaðanna á hverja kílóvattstund myndu helmingast, en það gæti tekið um þrjú ár fyrir sparnaðinn að nást að fullu.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Tesla Elon Musk Nikola Trevor Milton