Viðburðastýrurnar þær Dagmar Haraldsdóttir og Sandra Ýr Dungal hafa tekið höndum saman og opnað sitt eigið við- burðafyrirtæki, Concept Events. Áður störfuðu þær stöllur hjá fyrirtækinu Sagaevents ásamt Önnu Björk Árnadóttur sem hefur nú gengið til liðs við þær hjá Concept Events.

Síðastliðinn september kom upp hugmyndin að stofna fyrirtækið Concept Events. „Við ákváðum að gera þetta bara sjálfar og gera þetta persónulegra og á okkar forsendum. Við sögðum báð- ar upp störfum í lok september og byrjuðum formlega með Concept Events í byrjun janúar,“ segir Sandra Ýr Dungal.

Hún tekur jafnframt fram að reksturinn fari afskaplega vel af stað. „Við erum ekki ennþá búnar að koma okkur fyrir á skrifstofunni sem við fengum afhenta um áramótin. Við erum nú þegar búnar að vera með nokkra við­ burði og það er ekki langt lið­ ið af mánuðinum, þetta gengur vonum framar hjá okkur. Það er gaman að vinna fyrir þetta fólk og fyrirtæki sem við höfum unnið fyrir í mörg ár og finna traustið frá okkar viðskiptavinum,“ bætir Sandra við. Dagmar bætir við: ,,Þá erum við mjög heppnar að fá Önnu Björk til liðs við okkur. Auk þess að vera góður viðburðastjóri þá er hún með BA í rússnesku auk þess að hafa unnið mikið erlendis fyrir risana í snyrtivörugeiranum. Þá er hún einnig menntuð í markaðssetningu á samfélagsmiðlum.“

Áratuga reynsla að baki

Dagmar Haraldsdóttir, annar af meðstofnendum Concept Events, bætir við að þær stöllur hafi samanlagt áratuga reynslu að baki í viðburðastjórnun. „Við erum samtals með um 25 ára reynslu við framkvæmd ólíkra viðburða. Hluti af okkar áherslu í dag er að koma inn í stærri við­ burði hjá ferðaskrifstofum, það er svo gríðarlega mikið að gera í þeim geira. Þá er t.d. hægt að leita til okkar með einn afmarkaðan galakvöldverð eða aðrar uppákomur sem krefjast mikils utanumhalds og ekki alltaf sem starfsfólk ferðageirans hefur nægan tíma til að sinna þannig uppákomum. Það er gríðarleg vinna í kringum þetta, svo við getum stigið inn þar,“ tekur Dagmar fram

Sandra bætir við að það geti verið gott fyrir fyrirtæki að úthýsa viðburðum til viðburðafyrirtækja. „Fyrirtæki hafa séð hag sinn í því að úthýsa viðburðastjórnuninni til okkar. Oftast er hagkvæmara fyrir fyrirtækin að fara í gegnum okkur. Við erum með mjög fjölbreytt og gott tengslanet og góða birgja, okkar kúnnar njóta svo góðs af því. Svo er náttúrulega eitt sem ekki má gleyma, en það er hve mikið af dýrmætum tíma starfsmanna fyrirtækja getur farið í að vinna að svona viðburðum. Þó vinnum við að sjálfsögðu alltaf í samstarfi við skemmtinefndir fyrirtækja því auðvitað finnst þeim gaman að taka þátt í skipulagningunni, annars væru þau ekki í þessum nefndum,“ bætir hún við.

Dagmar bætir svo við: „Við erum fagfólk í okkar geira. Við vitum hvað þarf og hverju má sleppa, oft á tíðum ertu líka að spara þar. Viðburður er fjárfesting hjá fyrirtækjum og við tökum það mjög alvarlega að sú fjárfesting skili sér til þeirra sem við á.“ Sem dæmi getur vel heppnuð árshátíð skilað sér í ánægju starfsmanna sem mæta aftur glaðir til vinnu sem loks skilar sér í betri vinnuafköstum.

Fólk sér ekki vinnuna á bak við

Að lokum tekur Dagmar fram að þær leggi mikla áherslu á persónulega þjónustu. „Við erum ekki með stóra yfirbyggingu. Hins vegar erum við með mjög fjölbreytt og gott tengslanet og höfum á að skipa stórum og fjölbreyttum hópi af fólki sérhæfðu á sínu sviði. Þá leggjum við sérstaka áherslu á að vera til staðar 24 tíma sólarhrings fyrir okkar viðskiptavini,“

Sandra segir að það sé mikilvægt að öllum líði vel sem þær vinna með og fyrir. „Við elskum að hanna viðburði. Þetta starf er mikil vinna, en við værum ekki í þessu ef okkur þætti þetta ekki skemmtilegt. Fólk sér ekki Excelskjölin og vinnuna á bak við. Það er mjög mikil ábyrgð að vera með allt að 200 manns í vinnu í eitt kvöld.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .