*

sunnudagur, 13. júní 2021
Innlent 22. maí 2018 13:08

Videntifier opnar í Litháen

Íslenskt fyrirtæki, sem nýlega landaði stórum samningi við Facebook, flytur starfsfólk frá Reykjavík til Litháen.

Ritstjórn
Vilnius er höfuðborg Litháen.
Aðsend mynd

Íslenska fyrirtækið Videntifier, sem hannað hefur tækni til að greina og vernda höfundarrétt af myndum, hefur tilkynnt um opnun rannsóknar og þróunarmiðstöðvar í Vilnius, höfuðborg Litháen.

Um er að ræða fyrstu starfstöð fyrirtækisins utan Íslands, en hér á landi starfa um 11 starfsmenn fyrir fyrirtækið. Hyggst fyrirtækið flytja þrjá starfsmenn út auk þess að ráða allt að fimm nýja starfsmenn þar úti til viðbótar fram til loka árs. Næstu árin hyggst félagið ráða um 20 manns til starfa sem hafi þekkingu á myndvinnslu og forritun.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í byrjun mánaðarins náði félagið nýlega stórum samningi við Facebook. Hingað til hefur helstu viðskiptavinir þess verið löggæslu- og öryggisstofnanir ýmis konar, til að mynda Interpol.

Lithái starfað í fimm ár hjá fyrirtækinu

Félagið var stofnað árið 2008 af þeim Herwig Lejsek framkvæmdastjóra og Friðriki Ásmundssyni í samstarfi við Björn Þór Jónsson dósent við HR og fleiri en Ari Kristinn Jónsson rektor HR er stjórnarformaður fyrirtækisins. Árið 2013 gekk litháískur starfsmaður tilliðs við félagið hér á Íslandi og er hann ásamt stuðningi Invest Lithuania, ástæðan fyrir því að borgin var valin.

„Við sjáum Litháen sem stað sem getur hjálpað okkur að byggja fjölþjóðlegan og mjög sérhæfðan hóp sem geti unnið með okkur á grunni sameiginlegs skilnings og umburðarlyndis. Það er vel hugsanlegt að Vilnius geti orðið aðal rannsóknar og þróunarmiðstöð fyrirtæksins,“ segir Herwig.

„Við vonumst einnig til að vinna með háskólum á svæðinu og rannsóknarstofum þeirra og bjóða ungum vísindamönnum tækifæri til starfsnáms og læra um tækniþekkingu okkar meðan á masters- og doktorsnámi þeirra stendur.“