Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra fundaði í dag með Kaj Leo Johannessen, lögmanni Færeyja, í Þórshöfn í Færeyjum. Á fundinum var rætt um ýmis sameiginleg hagsmunamál landanna og kynnti forsætisráðherra lögmanni stefnu íslensku ríkisstjórnarinnar um aukna áherslu á samstarf við Norðurlönd, ekki síst vest-norræna samstarfið, norðurslóðasamstarf og efnahagsmál á breiðum grundvelli. Fram kemur í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu að m.a. var rætt um þá þýðingu sem olíuleit hefur haft fyrir efnahagslíf Færeyinga.

Sigmundur hefur nú á fyrsta mánuði sínum í embætti fundað með öllum norrænu forsætisráðherrunum, lögmanni Færeyja og formanni landsstjórnar Grænlands. Rifjað er upp að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar verður aukin áhersla lögð á samstarf á norrænum vettvangi og eru fundirnir liður í því að styrkja bein tengsl við aðra norræna ríkisstjórnaroddvita.