Hafnasamband Íslands telur að kostnaður við viðhald hafnarmannvirkja sé um tveir milljarðar króna árlega að jafnaði. Þá eru nýframkvæmdir ekki taldar með. Í þessum tölum eru ekki taldar framkvæmdir hjá Faxaflóahöfnum, Fjarðabyggðarhöfnum, Hafnarfjarðarhöfn og Kópavogshöfn en þessir fjórir hafnarsjóðir fjármagna sínar framkvæmdir með eigin aflafé.

Uppsöfnuð viðhaldsþörf er metin um 13 milljarðar króna, sem er sú upphæð sem þarf til að koma höfnum landsins úr viðunandi ástandi í gott.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Samtaka iðnaðarins: Innviðir á Íslandi 2021. Ástand og framtíðarhorfur.

Endurbygging og viðhald

Víða blasir við mikil uppbyggingarþörf í höfnum landsins. Á næstu 10 árum verða helstu framkvæmdir í höfnum endurbygging hafnarmannvirkja, dýpkanir og gerð nýrra viðlegu - og hafnarkanta með meira dýpi. Þá eru mörg hafnarmannvirki komin til ára sinna og t.d. töluverð endurbyggingarþörf á trébryggjum og stálþilsköntum.

Greining Hafnasambands Íslands 2019 sýnir að 13 hafnir glíma við rekstrarvanda svo sem neikvætt eigið fé eða hátt skuldahlutfall. Bág fjárhagsstaða margra hafna veldur því að sjóðirnir eiga erfitt með að standa undir viðhaldi og þeim framkvæmdum sem nauðsynlegar eru á næstu árum, segir í skýrslunni.

„Heimsfaraldurinn hefur haft töluverð neikvæð áhrif á rekstur hafna hérlendis og mikil óvissa ríkir með framhaldið. Þetta er áhyggjuefni þar sem staða margra hafna er ekki sterk og margar þeirra varla búnar að ná jafnvægi á rekstur sinn eftir efnahagshrunið árið 2008,“ segir í skýrslunni.

Ráðherra keikur

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, flutti nýlega ávarp á ársþingi Hafnasambandsins. Sagði hann að fjármagn til hafna og mikilvægra sjóvarna hafi verið stóraukið á starfstíma ríkisstjórnarinnar og síðast í tengslum við fjárfestingaátak hennar síðastliðið vor. Í ár verði 1,6 milljarði króna varið til hafnaframkvæmda og 1,2 milljarðar eru settir í hafnir í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2021. Alls sé áætlað að verja tæpum sjö milljörðum króna til þessara verkefna á sex ára tímabili til ársins 2025.