Samskip voru áður í meirihlutaeigu Kjalar, eignarhaldsfélags sem síðan var í meirihlutaeigu Ólafs Ólafssonar. Viðskiptablaðið greindi frá því í upphafi árs 2010 að Ólafur hefði náð samningum við helstu viðskiptabanka Kjalar, hollenska bankann Fortis og Arion banka.

Í framhaldinu eignaðist SMT Partners, félag í eigu Ólafs og helstu stjórnenda Samskipa, um 90% hlut í Samskipum með því að leggja félaginu til aukið hlutafé.

Í viðtali við Ásbjörn Gíslason, forstjóra Samskipa, veltir blaðamaður Viðskiptablaðsins því upp og spyr hvort neikvæð umfjöllun og mögulega viðhorf til Ólafs hafi haft truflandi áhrif á félagið. Ásbjörn svarar því til að félaginu vegni vel, bæði hér á landi sem erlendis.

„Ólafur kom að félaginu fyrir tæpum tuttugu árum, fyrst sem forstjóri og síðar sem stjórnarformaður. Hann tók við félaginu í snúinni stöðu á mjög erfiðum tímum og lagði grunninn að því félagi sem Samskip eru í dag,“ segir Ásbjörn.

„Hann hefur alla tíð stutt vel við bakið á okkur stjórnendum við uppbyggingu á félaginu og hefur jafnframt mjög viðamikla þekkingu á flutningageiranum. Það hefur reynst félaginu mjög farsælt að það er mikið til sami hópurinn sem hefur starfað hjá félaginu í langan tíma, hvort sem um er að ræða eigendur, stjórnendur eða almenna starfsmenn. Þetta er samhentur hópur sem hefur náð góðum árangri. Reksturinn hefur verið stöðugur og lítið um breytingar, við erum enn að fylgja eftir þeirri stefnu sem lagt var af stað með upp úr síðustu aldamótum.“

Að öðru, nú stefnir helsti samkeppnisaðili ykkar hér heima, Eimskip, að skráningu á markað á ný. Hefur komið til greina að skrá Samskip á markað?

„Samskip myndu sóma sér vel á hlutabréfamarkaði á komandi árum, en það er ekkert verið að ígrunda slíkt, okkur líður vel með félagið eins og það er,“ segir Ásbjörn.

Nánar er rætt við Ásbjörn í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu undir liðnum tölublöð hér að ofan.