*

mánudagur, 18. janúar 2021
Fólk 27. nóvember 2020 15:36

Víðir ráðinn dósent við HÍ

Hæstaréttarlögmaðurinn Víðir Smári Petersen, einn eigenda LEX, hefur verið ráðinn dósent í fjármunarétti við lagadeild HÍ.

Jóhann Óli Eiðsson

Hæstaréttarlögmaðurinn Víðir Smári Petersen hefur hafið störf sem dósent í fjármunarétti við lagadeild Háskóla Íslands. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lagadeildinni.

Víðir, sem er nýorðinn 32 ára, lauk meistaprófi í lögum frá HÍ árið 2011 og LL.M. gráðu frá Harvard árið 2015. Réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi öðlaðist hann sama ár og hann útskrifaðist úr meistaranámi. Þá lauk hann flutningi prófmála fyrir Hæstarétti árið 2017 og varð því hæstaréttarlögmaður er hann var 28 ára gamall, yngstur allra sem þeim áfanga hafa náð.

Auk þessa hefur Víðir sinnt stundakennslu við lagadeildina frá árinu 2011, árin 2015-16 undanskilin en þá var hann aðstoðarmaður hæstaréttardómara, og var hann ráðinn aðjúnkt við hana árið 2017. Í byrjun árs kom út ritið Eignaréttur I sem hann ritaði ásamt hæstaréttardómaranum Karli Axelssyni og fyrrverandi hæstaréttardómaranum Þorgeiri Örlygssyni. Þá hefur lögmaðurinn ritað nokkurn fjölda fræðigreina.

Samhliða þessu hefur Víðir starfað sem lögmaður á LEX en hann er einn af eigendum stofunnar. Víðir mun sinna lögmannsstörfum í einhverjum mæli samhliða dósentsstarfinu.