*

mánudagur, 22. júlí 2019
Innlent 21. júní 2018 12:31

Viðlagatrygging Íslands verður NTÍ

Með lagabreytingunum sem samþykktar voru á Alþingi er hlutverk stofnunarinnar betur skilgreint.

Ritstjórn
Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri NTÍ
Aðsend mynd

Viðlagatrygging Íslands, sem hefur það hlutverk að vátryggja gegn beinu tjóni af völdum náttúruhamfara, svo sem eldgosa, jarðskjálfta, skriðufalla, snjó- og vatnsflóða, fær nafnið Náttúruhamfaratrygging Íslands, skammstafað NTÍ, frá 1. júlí 2018 þegar breytingar á lögum um starfsemi stofnunarinnar taka gildi.

Með breytingunum, sem afgreiddar voru frá Alþingi í byrjun maímánaðar, er það hlutverk stofnunarinnar að sinna betur umfangsmiklum tjónum vegna náttúruhamfara skýrar afmarkað en áður var. Helstu breytingar eru þær að eigin áhætta tjónþola lækkar úr 5% í 2%, samhliða því sem lágmarkfjárhæðir eigin áhættu hækka. Eigin áhætta í hverju tjóni fer úr 20 þúsund krónum í 200 þúsund krónur vegna lausafjár, úr 85 þúsund krónum í 400 þúsund krónur vegna húseigna og úr 850 þúsund krónum í eina milljón króna vegna opinberra mannvirkja.

„Tilgangur þessara breytinga er að gera Náttúrhamfaratryggingu Íslands kleift að sinna betur þeim sem verða fyrir verulegu tjóni af völdum náttúruhamfara. Breytingin er til hagsbóta fyrir þá sem verða fyrir tjóni sem nemur meira en 8 milljónum króna á fasteignum sínum, þar sem þeir munu greiða lægri eigin áhætta af tjóni sínu. Þeir sem verða fyrir minna tjóni bera hins vegar hærri eigin áhættu en áður,“ segir Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri NTÍ. 

Samhliða breytingum á lögum um starfsemi Viðlagatryggingar var ákveðið að breyta nafni hennar í Náttúrhamfaratrygging Íslands. 

„Nýja nafnið lýsir mun betur tilgangi stofnunarinnar og markmiðum en það gamla sem hefur valdið misskilningi í samskiptum okkar við almenning, viðskiptavini og fjölmiðla. Jafnframt er þýðing á nýja nafninu yfir á erlend tungumál auðveldari, sem er mjög til bóta í viðskiptum okkar við erlenda aðila um endurtryggingar þar sem ósamræmi á milli gamla íslenska nafnsins og þess enska hefur ítrekað valdið misskilningi,“ segir Hulda.