„Það kemur mér á óvart hvað þetta er ódýrt. Efnahags- og viðskiptanefnd er ekki búin að fjalla um málið en nefndin kemur til með að fjalla ítarlega um þetta,“ segir Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar, í samtali við Fréttablaðið.

Þar kemur fram að þingmenn stjórnarandstöðunnar telji óraunhæft að það geti kostað 745 krónur á dag að fæða hvern einstakling, eins og gert er ráð fyrir í frumvarpi fjármálaráðherra til breytinga á lögum um virðisaukaskatt.

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, segir að mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar séu ansi götóttar. „Við ætlum að leggja til að matartollar verði teknir af til að hamla á móti hækkun á matvöru,“ segir Jón Þór.