Þrátt fyrir oft á tíðum gott gengi með félagsliðum hafa tækifærin Alfreðs Finnbogasonar með landsliðinu oftar en ekki verið af skornum skammti. Alfreð hefur mátt verja löngum stundum á varamannabekknum þó að frammistaðan með liðinu gefi ekki endilega tilefni til þess. „Ég hef þurft að bíða lengi eftir eldskírn með landsliðinu.“

Hann segir sína erfiðustu stund á ferlinum vera að heyra að hann myndi ekki byrja inn á gegn Portúgal í fyrsta leik íslenska karlalandsliðsins á stórmóti. „Ef maður ætti að velja eitt augnablik væri það að heyra að maður væri ekki að byrja fyrsta leikinn á EM. Ég var búinn að leggja á mig gríðarlega mikla vinnu og setja mér háleit markmið um að vera lykilmaður þar og fannst ég hafa gera allt rétt í undirbúningnum.“ En á endanum sé það þjálfarinn sem velji liðið.

„Það er eiginlega meira pirrandi í landsliðinu að hafa staðið sig vel, því maður vill vera hluti af þessu. En allir leikmennirnir sem sitja á bekknum eru svekktir.“

Hins vegar sé ævintýrið með landsliðinu einnig það sem helst standi upp úr á ferlinum. „Upplifunin að taka þátt í leikjunum gegn Kósóvó og Kasakstan þar sem Ísland tryggði sig inn á HM og EM hafi verið stórkostleg. „Þetta eru stundir sem eru ógleymanlegar.“

Alfreð segist strax hafa fundið mun á sinni stöðu eftir að Lars Lagerbäck hvarf á braut og Heimir Hallgrímsson tók einn við landsliðinu, með Helga Kolviðsson sér til aðstoðar, fyrir undankeppni HM í Rússlandi. „Strax eftir fyrsta leik áttum við Heimir nokkuð gott samtal,“ segir Alfreð.

Nánar er fjallað um málið í Áramótum , sérriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .