Stjórnarmyndunarviðræðum Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar hefur verið slitið.

Síðan Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins tilkynnti á föstudag um að formlegar sjórnarmyndunarviðræður myndu hefjast við Viðreisn og Bjarta framtíð hafa formenn flokkanna og vinnuhópar þeirra fundað um málefnin.

Var búist við frekar fundarhöldum í dag en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur viðræðunum nú verið slitið.

,,Ég tel að samtöl undanfarinna daga hafi leitt í ljós að það væri afar óvarlegt að leggja af stað með þann málefnagrunn sem um er rætt og nauman meirihluta inn í kjörtímabilið.  Margt segir mér að aðstæður kalli á  ríkisstjórn með breiðari skírskotun og sterkari meirihluta en þann sem þessir þrír flokkar geta boðið.  Ég útiloka ekkert fyrirfram í þeim efnum,” er haft eftir Bjarna Bendiktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, í fréttatilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum.

Þar kemur einnig fram að fundir flokkanna hafa leitt í ljós góðan samhljóm um hin ýmsu mál, en áherslumun um útfærslu annarra, enda stefna flokkanna ólík á ýmsum sviðum.

Mest ber á milli í sjávarútvegsmálum

Stóru ágreiningsmálin eru þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB, kerfisbreyting í landbúnaði og svo sjávarútvegsmálin, en RÚV segist hafa heimildir fyrir því að þar beri mest á milli.

Boðaði Viðreisn í kosningabaráttunni markaðstengt gjald fyrir nýtingu auðlinda í almannaeigu, en þá leið munu Sjálfstæðismenn ekki vera tilbúnir að fara.

Er talið að flokkarnir geti náð samkomulagi um ESB og jafnvel í landbúnaðarmálum, en í þeim var Björt framtíð eitt um það að í september að greiða atkvæði gegn búvörusamningur ríkisstjórnarinnar.

Á föstudaginn í síðustu viku sagði Bjarni að langbest ef hægt væri að ljúka stjórnarsáttmála um miðja þessa viku, því þær þyrftu að ganga hratt fyrir sig.