Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, segir að það liggi fyrir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um að slíta viðræðum við Evrópusambandið. Sú ákvörðun hafi hvorki verið tekin af hálfu Íslendinga né Evrópusambandsins. Þetta sagði hann í svari við athugasemd Árna Þórs Sigurðssonar í umræðum um störf þingsins. Árni Þór sagði að Ísland væri Evrópuþjóð og samskiptin við Evrópusambandið væru mikil, burtséð frá spurningunni um aðild eða ekki.

„Síðast i gær fullyrti forsætisráðherra að Evrópusambandið hefði í raun og veru slitið aðildarviðræðum við Ísland með því að veita ekki IPA styrki,“ sagði Árni Þór. Hann sagði að ráðherra gæti ekki komið fram á Alþingi með slíkar fullyrðingar. „Ef íslensk stjórnvöld vilja ekki eiga í viðræðum við evrópusambandið verður að tilkynna þeim það af okkar hálfu,“ sagði hann.

Birgir sagði að margir kostir væru í stöðunni. Einn væri sá að greiða atkvæði um málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Engin ákvörðun hefði verið tekin um það. Það væri líka hægt að senda erindi til Evrópusambandsins og draga með því umsóknina frá 2009 til baka. Þriðja leiðin væri að tilkynna Evrópusambandið að það hlé sem hefði verið gert á aðildarviðræðunum væri til lengri tíma og ótímabundið.