Aðildarviðræðum við Evrópusambandið verður hætt samkvæmt stjórnarsáttmála Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, að því er kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Umsóknarferlið verður ekki tekið upp á ný nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Nánari útfærsla á því hvernig ferlið verður stöðvað verður kynnt fljótlega.

Krónan verður áfram gjaldmiðill þjóðarinnar í fyrirséðri framtíð, samkvæmt sáttmálanum. Þá verður stofnað ríkisolíufélag í tengslum við olíuleit og síðar hugsanlega olíuvinnslu á Drekasvæðinu.

Taka á á verðtryggingunni með betri efnahagsstjórn og stöðugleika en skoðað verður að leiðrétta húsnæðislán með niðurfærslu og eins í gegnum skattkerfið.