Fríverslunarsamningur á milli Bandaríkjanna og ESB gæti bætt aðgang Íslendinga að bandarískum markaði. Hins vegar er óvíst hver áhrifin verða þar sem útflutningur Íslendinga til Bandaríkjanna var aðeins 4,5% af heildarútflutningi í fyrra. Innflutningur frá Bandaríkjunum hingað var 10,2% af heildarvöruinnflutningi.

Þetta er mat Ingjalds Hannibalssonar, prófessors og forseta viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands.

Ingjaldur var spurður að því á netmiðlinum Spyr.is hvað viðræður um fríverslunarsamning á milli Bandaríkjanna og ESB geti þýtt fyrir EES-samninginn og hvort EFTA-ríkin geti fengið aðild að honum. Ingjaldur telur áhrifin verða engin á EES-samninginn en vel sé hugsanlegt að EES-ríkin geti fengið aðild að honum.

„Slíkur samningur gæti bætt aðgengi íslenskra afurða að Bandaríkjamarkaði og lækkað verð á bandarískum afurðum á Íslandi,“ svarar Ingjaldur.