Viðræður demókrata og repúblíkana í bandaríska þinginu strönduðu á föstudag og virðast flokkarnir á þessari stundu munu leggja fram mismunandi tillögur.

Hlutabréf á Wall Street hafa lækkað í dag af ótta um að lánshæfismat Bandaríkjanna verði lækkað.  Helstu vísitölur hafa lækkað um allt að hálft prósent og gull hefur hækkað um 1%.

Deilur milli flokkanna snúast meðal annars um hvort hækka eigi skuldaþakið nægilega mikið svo ekki þurfi að koma til frekari hækkunnar fyrr en eftir forsetakosningarnar 2012.  Repúblíkanar vilja jafnframt meiri niðurskurð á ríkisútgjöldum en demókratar.

Timothy Geithner fjármálaráðherra Bandaríkjanna sagði í byrjun júní að skuldaþakið þyrfti að hækka fyrir 2. ágúst, ella blasi greiðslufall við alríkissjóði Bandaríkjanna.