„Gangur viðræðnanna hefur verið jafn og er vaxandi,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og bætir við: „Við erum að fást við flókin málefni sem krefjast nákvæmni og yfirlegu. Þá borgar sig að hafa fá orð en mikla þolimæði.“

Kjaraviðræður Samtaka atvinnulífsins og verkalýðsfélaga héldu áfram í vikunni en nú eru fjórar vikur síðan kjarasamningar losnuðu á almenna vinnumarkaðinum. Viðræðurnar hafa aðallega farið fram á tvennum vígstöðvum en Samtök atvinnulífsins hafa annars vegar fundað með þeim fjórum verkalýðsfélögum sem vísað hafa deilunni til Ríkissáttasemjara og hins vegar Starfsgreinasambandinu sem ekki hefur óskað eftir sáttameðferðar. Auk viðræðna við þessa tvo hópa ræðir SA við Landsamband íslenskra verslunarmanna og Félag iðnaðarmanna.

Sjötti sáttafundur var haldinn með fyrrgreinda hópinum í húsakynnum Ríkissáttasemjara fyrr í vikunni. Félögin sem óskuðu eftir sáttsmeðferð eru Verkalýðsfélags Grindavíkur, Efling, VR og Verkalýðsfélag Akraness. Fyrr í vikunni funduðu SA og Starfsgreinasambandið og annar fundur væntanlegur á nk. föstudag.

„Kjarasamningar snúast um uppbyggingu vinnumarkaðarins og jákvæða þróun samfélagsins. Það er verkefnið sem við stöndum frammi fyrir og það er verkefnið sem við verðum að leysa. Á meðan viðræður standa yfir þá þokast málið í rétta átt,“ segir Halldór að endingu.