Samninganefndir SFR, SLFÍ og LL og samninganefnd ríkisins undir stjórn sáttasemjara hafa fundað alla verkfallsdaga en þótt þær hafi þokast í rétta átt þá er hægagangurinn mikill á viðræðunum. Þetta kemur fram í frétt á vefsíðu SFR um stöðu mála.

Í fréttinni segir að formenn félaganna minni á að enn sé fjöldi fólks í verkfalli og mikilvægar stofnanir meira og minna lamaðar vegna þess. „Það [er] ástand sem stjórnvöld beri ein ábyrgð á, samningar séu búnir að vera lausir frá því í lok apríl og það hafi verið neyðarbraut að grípa til verkfallsaðgerða vegna sinnuleysis þeirra,“ segir í fréttinni.

Verkfall SFR, SLFÍ og LL hefur nú staðið í tæpa viku. Fyrstu lotu í allsherjarvinnustöðvun er lokið og lögðu um fimm þúsund starfsmenn niður vinnu í fjóra daga. Félagsmenn SFR sem starfa hjá Tollstjóra, Ríkisskattstjóra og sýslumannsembættunum og Landspítala eru áfram í ótímabundnu verkfalli og einnig eru sjúkraliðar sem starfa á dagvöktum á Landspítala, Heilsustofnun Austurlands og Heilsustofnun Suðurnesja í verkfalli á dagvöktum alla virka daga.