*

laugardagur, 4. apríl 2020
Innlent 14. nóvember 2019 13:23

Viðræður um kaup á Straumsvík

Stjórnendur Norðuráls vilja ekki tjá sig um viðræður vegna kaupa á álveri Rio Tinto í Straumsvík.

Ritstjórn
Álver Ísal í Straumsvík er í eigu Rio Tinto, en félagið hefur verið með álverið í sölu í þónokkurn tíma.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að viðræður hafi undanfarið staðið yfir milli forsvarsmanna Norðuráls og Rio Tinto um að fyrrnefnda fyrirtækið, það er eigendur þess, muni kaupa álver Rio Tinto í Straumsvík.

Þegar Viðskiptablaðið leitaði viðbragða hjá aðilum voru svör á þá leið að þeir gætu ekki tjáð sig um málið að nokkru leyti. Álverið í Straumsvík hefur verið til sölu en síðasta haust runnu samningaviðræður Rio Tinto og Norsk Hydro út í sandinn á lokametrum þeirra vegna viðbragða evrópskra samkeppnisyfirvalda.

Viðskiptablaðið sagði frá því í sumar að breski hrávörurisinn Glencore sem og þýski álframleiðandinn Trimet Aluminium væru meðal áhugasamra um að kaupa álverið, ásamt mögulega eignum Rio Tinto í Svíþjóð og Hollandi.

Glencore er stærsti hluti Century Aluminum sem er eigandi Norðuráls, með um 13% beinan eignarhlut, en auk álversins á Grundartanga á Century Aluminum tvö álver í Kentucky ríki í Bandaríkjunum og eitt til viðbótar í Suður Karólínu.