Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, gekk á fund forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannesarsonar, og tilkynnti honum að á grundvelli samtala við formenn Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, hafi aðilarnir í dag ákveðið að hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður. Þetta kemur fram í tilkynningu frá þingflokki Sjálfstæðisflokksins.

Bjarni hefur undanfarna daga rætt við formenn annarra stjórnmálaflokka, á grundvelli þess umboðs sem forseti Íslands fól honum 2. nóvember síðastliðinn.

Óformlegar viðræður formanna Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar hafa staðið yfir upp á síðkastið og hittust formenn flokkanna þriggja, þeir Bjarni Benediktsson, Óttarr Proppé og Benedikt Jóhannesson í dag, til að ræða mögulega stjórnarmyndun.

Sjálfstæðisflokkurinn hlaut 29% atkvæða í Alþingiskosningum og hlaut 21 þingmann og bætti því við sig tveimur mönnum. Viðreisn hlaut 10,5% fylgi og fékk 7 menn kjörna. Björt framtíð hlaut 7,2% atkvæða og fékk 4 menn kjörna. Samanlagt gera það 32 þingmenn sem telst naumur þingmeirihluti.