Stúdentaráð Háskóla Íslands og 10-11 hafa undanfarið verið í viðræðum um breytta nýtingu plássins sem 10-11 er í á Eggertsgötu. Aron Ólafsson, formaður SHÍ, segir í samtali við Viðskiptablaðið að eitt af markmiðum Stúdentaráðs í viðræðunum sé að stuðla að lækkun vöruverðs. Hann segir þó að viðræður liggi niðri um þessar mundir vegna sumarleyfa.

Sömu eigendur eru á 10-11 og Iceland verslununum og hafa viðræður Stúdentaráðs verið við viðkomandi aðila. Í viðræðunum hefur verið talað um að nýtt vörumerki verði stofnað. Vinnunafnið innan Stúdentaráðs er Háskólabúðin, en Aron tekur fram að það séu mótaðilarnir í viðræðunum sem ákveði nafn verslunarinnar.

Vöruúrvalið í nýju versluninni á að endurspegla þarfir stúdenta. „Það hefur verið óskað yfir því að við myndum gera einhvers konar lista, eða þarfagreiningu, á því hvað [stúdenta] vantar,“ segir Aron. Hann segir að eftir sé að finna leið til að tryggja lágt vöruverð.

„Við erum að biðja þau um að vinna með stúdentum, og þeir hafa sýnt því mikinn vilja. Það er bara spurningin um hvert er útfærsluatriðið, hvernig bindum við niður þetta vöruverð,“ segir Aron.