„Þetta mjakast hægt og bítandi. En við erum dálítið að vinna þetta umboðslaus á meðan ekkert kemur frá ríkinu. Þetta mál stendur og fellur með samningi við ríkið,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.

Samþykkt var á fundi bæjarstjórnar á síðasta degi febrúar að stofna hlutafélag um smíði og eignarhald á nýrri Vestmannaeyjaferju sem muni taka við af Herjólfi árið 2015. Áætlaður kostnaður við smíðina er talinn nema á bilinu 4 til 5 milljarðar króna. R'iki, sveitarfélögum í nágrenni Landeyjahafnar, lífeyrissjóðum á svæðinu og áhugasömum fjárfestum á að bjóða að borðinu. Vestmannaeyjabær stefnir ekki á að eiga stóran hlut í félaginu. Hugmyndin er að leigja ferjuna til ríkisins en að fjárfestahópurinn eigi skipið.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur tekið vel í hugmyndina en málið hefur ekki verið rætt í ríkisstjórn.

„Við erum komin með næmisgreiningu á rekstrinum og teljum að við getum boðið ríkinu upp á lausn sem sé ásættanleg fyrir alla. En við eigum erfitt með að fara í viðræður við lífeyrissjóði og fjárfesta á meðan ekki liggur fyrir hvort þetta er leið sem ríkinu hugnast. Þetta er svo stórt verkefni að ríkisstjórnin verður að vera einhuga á bak við það,“ segir Elliði.

„Um leið og ríkið er klárt þá verður allt í gang hjá okkur. En við verðum að vera samferða,“ segir bætir hann við.

© BIG (VB MYND/BIG)