Viðræður standa nú yfir á milli bandarískra kaupsýslumanna og eigenda tískufata keðjunnar All Saints um kaup á stórum hlut í henni.

Keðjan er mjög skuldsett og er sem stendur í meirihlutaeigu skilanefnda Landsbankans og Glitnis. Þær eignuðustu hlutinn þegar fyrri meirihlutaeigandi All Saints, Baugur Group, varð gjaldþrota. Frá þessu er greint á mbl.is.

Verði kaupin að veruleika þá er búist við því að Bandaríkjamennirnir muni greiða niður hluta af miklum skuldum keðjunnar, en þær eru í dag tæpir 10 milljarðar króna. Verði ekkert af viðskiptunum er búist við því að breski bankinn Lloyds muni setja All Saints í þrot, en bankinn er stærsti kröfuhafi keðjunnar.

Lloyds er auk þess að mestu í eigu breska ríkisins eftir björgunaraðgerðir sem gripið var til í kjölfar alþjóðlegu fjármálakreppunar. Alls starfa um 2000 manns hjá All Saints sem rekur 63 verslanir víða um heim og 47 deildir innan stærri verslana. Talið er að Kevin Stanford, sem var oft samverkamaður Baugs, eigi enn umtalsverðan hlut í keðjunni.