Þrátt fyrir nýlega ályktun flokksráðs Vinstri grænna (VG) mun ríkisstjórnin ekki beita sér frekar fyrir því að eignarhlutur Alterra Power (áður Magma Energy) í HS Orku verði færður í samfélagslega eigu. Hins vegar mun ríkið áfram eiga viðræður við félagið um styttingu leigutíma á nýtingu orkuauðlinda og mögulegan forkaupsrétt ríkisins.

Þetta kom frá í svari Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, við óundirbúinni fyrirspurn á Alþingi fyrir stundu. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, spurði hvort forsætisráðherra ætlaði að beita sér fyrir því að félagið yrði fært í samfélagslega eign í takt við nýleg ályktun VG. Þá spurði Bjarni jafnframt hvort forsætisráðherra myndi styðja rannsókn á söluferlinu á HS Orku.

Jóhanna ítrekaði að lífeyrissjóðirnir hefðu nýlega keypt um 25% hlut í HS Orku. Þá sagði hún að ekkert væri því til fyrirstöðu að rannsaka söluferlið, en spurði Bjarna á móti hvort hann myndi styðja rannsókn á fleiri atriðum, s.s. einkavæðingu bankanna.

Bjarni minnti enn á ályktun flokksráðs VG og fagnaði því að forsætisráðherra ætlaði sér ekki að verða við þeirri ályktun.