Ráðgjafaráð Viðreisnar hefur samþykkt ályktun þess efnis að ráðherrum flokksins sé rétt og skylt að verða við tilmælum forsetans um að sitja í starfstjórn áfram.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær svaraði formaður flokksins, Benedikt Jóhannesson því ekki strax hvort flokkurinn myndi gera það heldur sagðist hann myndi gefa svar eftir helgi en nú virðist sem flokkurinn hafi vegið og metið svarið eins og Benedikt sagði að þyrfti að gera.

„Ráðgjafaráð Viðreisnar telur að ráðherrum flokksins sé rétt og skylt að verða við tilmælum forseta Íslands um að sitja áfram í ráðuneytum sínum, enda er þar byggt á langri stjórnskipulegri hefð á Vesturlöndum. Jafnframt ítrekar ráðið að nauðsynlegt sé að embættisfærsla ráðherra í málum sem leiddu til stjórnarslitanna verði rannsökuð og að niðurstaða liggi fyrir áður en gengið verður til kosninga,“ segir í fréttatilkynningu frá flokknum.

Ráðgjafaráðsfundinn sóttu yfir 40 manns: stjórn Viðreisnar, þingflokkur, varaþingmenn, formenn málefnanefnda, stjórnir landshlutaráða og stjórn ungliðahreyfingarinnar.