Stjórnmálaflokkurinn Viðreisn hefur nú boðað til stofnfundar þann 24. maí næstkomandi. Hann verður haldinn í Silfurbergi í Hörpu og hefst klukkan 17:00. Á honum verður kosið til stjórnar og stefnuyfirlýsing verður samþykkt fyrir flokkinn allan.

Viðreisn hallast til hægri og er markaðssinnaðri en ella - ekki ólíkt Sjálfstæðisflokknum - en meðal stefnumála flokksins er að kosið verði um hvort Ísland ljúki viðræðum um aðild að Evrópusambandinu - stefnumál sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur öndverða skoðun á. Þá vill Viðreisn einnig að landbúnaðarkerfinu eigi að hleypa inn á frjálsan markað í áföngum.

„Við erum búin að hafa yfir 100 manns í stefnumótun flokksins siðustu mánuði. Við erum búin að undirbúa stefnuskrá og klárum fyrstu drög í þessari viku. Því næst munum við skipa nefnd sem fer yfir hana og sér til þess að ekkert stangist á,” segir Geir Finnsson, einn stofnenda flokksins í viðtali við Viðskiptablaðið.

„Úr Viðreisn kemur fólk úr Sjálfstæðisflokknum, Samfylkingu auk annarra flokka - en auk þess hefur fólk sem aldrei hefur áður fundið sér nægilegan pólitískan farveg annarsstaðar fundið sér samastað innan flokksins.”

Í fréttatilkynningu Viðreisnar segir að „allir sem vilji styðja Viðreisn til þess að gera grundvallarbreytingar á íslenskum stjórnmálum séu hvattir til þess að mæta á stofnfundinn og sýna þannig í verki vilja til þess að Íslendingar stigi ákveðin skref til betra samfélags.”