Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, er mjög ánægður með fylgi Viðreisnar í nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup. Í samtali við Viðskiptablaðið segir hann að hann sé „feginn að sjá okkar málflutningur fær góðan meðbyr.“ Hann vonast jafnframt að þetta fylgi endist fram að kosningum.

Hann telur að fylgið geti aukist eftir að Viðreisn tilkynni um hverjir verði í framboði. Tekur hann fram að listinn fyrir NV-kjördæmi sé tilbúinn og 4-5 kjarnakonur og 2-3 karlar hafi tilkynnt um framboð sitt nú þegar. Þó vildi hann lítið tjá sig um hverjir aðrir gætu verið í framboði fyrir flokkinn. „Þetta er svolítið eins og púsluspil“ segir Benedikt og bendir á að uppstillingarnefndir eigi eftir að vinna sína vinnu.

„Menn eru alltaf að reyna að finna út hvort að Viðreisn sé hitt eða þetta“

„Viðreisn er Viðreisn“ segir Benedikt, aðspurður að því hvernig flokkur Viðreisn sé og vísar hann þar með í orð Jónu Sólveigar sem er í framboði fyrir flokkinn. „Menn eru alltaf að reyna að finna út hvort að Viðreisn sé hitt eða þetta. Erum við gamlir kratar eða erum við frjálslyndi armur Sjálfstæðisflokksins? Við erum bara fólk sem stendur bak við þessa stefnu sem við boðum.“

„Maður þarf ekki að vera rosalegur leynilögreglumaður til að átta sig á því“, svarar Benedikt, þegar hann var spurður hvort að líklegt sé að konur skipi efstu sæta lista Viðreisnar á Suður-, Suðvestur- og á öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu. En flokkurinn hefur gefið út að hann vilji hafa jöfn kynjahlutfall oddvita á lista.

Þegar hann er spurður að hvers vegna hann bjóði sig fram í NA kjördæmi, þá segist hann að flokkurinn vilji fyrst og fremst leggja áherslu á að hann sé flokkur sem á að höfða til fólks alls staðar á landinu. Hann vill ekki stilla þessu upp sem höfuðborginni gegn landsbyggðinni. Benedikt á einnig rætur að austan og norðar segir hann.