Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður Sjálfstæðisflokksins segir stöðuna í stjórnarmyndunarviðræðunum vera flókna.

„Boltinn er núna hjá Katrínu og þeim flokkum sem skilgreina sig sem vinstriflokka og þeir geta auðvitað myndað fjölflokka stjórn eins og nýja hugtakið yfir þetta er,“ segir Guðlaugur Þór sem segir slíkar stjórnir ekki hafa reynst vel.

„Ég sá að Svavar Gestsson var að reyna að halda því fram að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar 1988 til 1989 hafi verið góð stjórn, en það stenst enga sögulega skoðun. Þar var um að ræða alveg óheyrileg hrossakaup.“

Guðlaugur Þór segir hugmyndir Viðreisnar um millifærslusjóð fyrir afraksturinn af uppboði aflaheimilda svipaðar og þarna var í gangi.

„Þá var meðal annars ráðherra án ráðuneytis sem fékk bíl og bílstjóra, svo voru millifærslusjóðir settir alveg sérstaklega upp og einn flokkur settur yfir þá til að fá þá til fylgilags við ríkisstjórnina og svona mætti áfram telja,“ segir Guðlaugur Þór.

„Þeir eru með svolítið gamaldags hugmyndir sem eru gengnar aftur.“